Þjóðlagahátíðin á Siglufirði er nú haldin í 20. skiptið dagana 3. til 7. júlí 2019 og ber yfirskriftina Ást og uppreisn.

Á hátíðinni verða haldnir 18 tónleikar, í Siglufjarðarkirkju, Bátahúsinu, Gránu og Rauðku, auk þess sem boðið verður upp á skemmtileg námskeið og Þjóðlagaakademíu um íslenska og erlenda þjóðlagatónlist.

Á þessum 20 árum hafa mörg þúsund gestir lagt leið sína á hátíðina og fjöldi tónlistarmanna komið fram. Mörg verk íslenskra tónlistarmanna hafa verið frumflutt, en í ár mun Sinfóníuhljómsveit unga fólksins (Ungfónía) flytja nýtt hljómsveitarverk eftir Gunnar Andreas Kristinsson.

Opnunartónleikar Þjóðlagahátíðarinnar 2019 verða með stórsöngvurunum Bjarna Thor Kristinssyni bassa og Lilju Guðmundsdóttur sópran, en svo koma einnig fram aðrir frábærir tónlistarmenn eins og hljómsveitin Felaboga frá Noregi og hljómsveitin Strá-kurr sem spilar blágresistónlist frá Bandaríkjunum, Johanna Zwaig og Ragnar Heyerdahl frá Noregi, þjóðlagasveitin Úmbra og svona mætti lengi telja.

Nánari upplýsingar um hátíðina er hægt að sjá á siglofestival.com