Senn líður að Alþingiskosningum á Íslandi, en þær verða laugardaginn 25. september næstkomandi.

Af því tilefni vill Trölli.is bjóða framboðum allra flokka sem bjóða fram til Alþingis haustið 2021 að senda inn grein eða pistil sem komið gæti kjósendum til hjálpar þegar að því kemur að gera upp hug sinn um hvað skal kjósa.

FLÝTUM SAMGÖNGUBÓTUM Í FJALLABYGGÐ

Njáll Trausti Friðbertsson og Hanna Sigríður Ásgeirsdóttir eru frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.

Í heimsóknum okkar í Fjallabyggð síðustu vikurnar höfum við lagt áherslu á að sjálfstæðisstefnan sé byggðastefna og byggi á kröfu um sanngirni, jafnræði og sömu tækifæri. Íbúar landsbyggðarinnar verða að njóta sömu tækifæra, grunngerðar og stoðkerfis og þeir sem búa í fjölmenni höfuðborgarinnar. Þetta er sanngirni og skynsamlegt fyrir Ísland allt.

Ekki síst með samgöngubætur og uppbyggingu fjarskiptakerfisins. Atvinnuvegir gera kröfu um þetta og krefjast úrbóta og framfara. Fólkið í landinu einnig. Þessi sanngjarna krafa á ekki síst við um samgöngubætur í Fjallabyggð. Þekkt er að Ólafsfjarðarvegur og Siglufjarðarvegur, meginæð Fjallabyggðar, lokast ítrekað vegna ófærðar. Það veldur ómældu tjóni fyrir einstaklinga og fyrirtæki og er ekki boðlegt.

Áætlanir um jarðagangagerð

Áratugir án samgöngubóta í Fjallabyggð eru ekki í boði. Það skiptir miklu að ríkisvaldið sé þannig í sveit sett að hægt sé að vinna í tvennum jarðagangaframkvæmdum á hverjum tíma. Annað er óskynsamlegt.

Það verður að flýta bráðnauðsynlegum samgönguverkefnum við utanverðan Eyjafjörð. Strákagöng og Skriðurnar standast ekki nútímakröfur. Um það eru fagmenn sem og leikmenn sammála. Þessar ófærur kalla á ný göng milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar, enda þekkja allir að Múlagöng eru barn síns tíma. 

Skýr krafa

Mörg orð eru óþörf. Krafan er skýr: Flýta verður samgöngubótum í Fjallabyggð.

Kjósendur í Norðausturkjördæmi þekkja að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa látið til sín taka á vettvangi atvinnu- og samgöngubóta, enda tengist það byggðamálum og byggðafestu. Þetta eru viðfangsefni sem allir þekkja að skipta byggðirnar okkar gríðarlega miklu. Vísa mætti til ótal blaðagreina í fjölmiðlum sem einnig eru aðgengilegar á samfélagsmiðlum.

Um þessar vegabætur viljum við hafa forystu. Til þess þarf Sjálfstæðisflokkurinn sterkt umboð kjósenda í Norðausturkjördæmi. 

Mörg orð eru óþörf. Krafan er skýr: Flýta verður samgöngubótum í Fjallabyggð.