Á heimasíðu Síldarminjasafns Íslands segir að 30 ár eru liðin síðan FÁUM – félag áhugamanna um minjasafn var stofnað. Það var 23. september 1989 og strax voru línur lagðar um uppbyggingu safns um sögu Siglufjarðar – og á þeim fundi var hugmyndin um Síldarminjasafn Íslands nefnd með skýrum hætti.

Óþarfi er að lýsa framhaldinu, það þekkja flestir, en segja má að mjög óvenjuleg leið hafi verið farin í uppbyggingu safnsins þar sem áhugafólk, fólkið í bænum, tók málin í sínar hendur og gerði það sem gera þurfti. Margir einstaklingar lögðu hönd að verki og svo víðtækur var hinn fjárhagslegi stuðningur að tala má um þjóðarátak.

Sjálfboðaliðar, FÁUM-fólkið, 1991

Margir telja að með Síldarminjasafni Íslands hafi byrjað nýtt skeið í sögu Siglufjarðar – eða hefur nokkurt safn á landinu haft jafn mikil áhrif á nærsamfélag sitt og Síldarminjasafnið?

Á vefsíðu safnsins eru varðveitt valin ummæli gesta. Þar á meðal eru orð þáverandi forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, sem hann lét falla í ræðu í Bátahúsinu 24. júlí 2004: “Með tilkomu Síldarminjasafnsins greru til fullnustu sárin sem urðu í bæjarsál Siglufjarðar við hvarf síldarinnar 1968.”

Annað safnafmæli varð fyrr á þessu ári. Þann 7. júlí voru 25 ár liðin síðan lokið var við endurreisn Róaldsbrakka og hann vígður sem safnhús. Fyrir fimm árum, þegar FÁUM varð 25 ára og Síldarminjasafnið 20 ára, var þess minnst með ríkulegri dagskrá og mikilli veislu.

Róaldsbrakki á níunda áratugnum

 

Myndir inn í frétt: Síldarminjasafns Íslands