Á 735. fundi bæjarráðs Fjallabyggðar var lagt fram vinnuskjal bæjarstjóra, deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála og deildarstjóra tæknideildar er varðar greiningu á möguleikum til að flytja 5. bekk grunnskólans yfir í starfstöð skólans í Ólafsfirði. Einnig lögð fram bókun fræðslu- og frístundanefndar frá 109. fundi nefndarinnar hvar hún að beiðni bæjarráðs veitir umsögn um málið eins og það þá lá fyrir. Umsögn nefndarinnar var á þá leið að besta leiðin til framtíðar væri að byggja við núverandi húsnæði grunnskólans í Ólafsfirði.

Í framlögðu vinnuskjali kemur fram að höfundar hafi velt upp þremur möguleikum sem hafa að markmiði að auka húsrými starfstöðvarinnar þannig að flytja megi 5. bekk þangað. Þrjár hugmyndir voru reifaðar, í fyrsta lagi að byggja við núverandi skólahús, í öðru lagi að reisa frístandandi kennslustofu við skólann með tengibyggingu og í þriðja lagi að nýta hluta húsnæðis Menntaskólans á Tröllaskaga (MTR). Ekki er gerð ákveðin tillaga í vinnuskjalinu heldur er leitast við að draga fram upplýsingar og helstu kosti hverrar leiðar fyrir sig. Í vinnuskjalinu er einnig leitast við að grófáætla kostnað vegna hverrar hugmyndar, áætlað er að viðbygging við skólann kosti á bilinu 100 til 140 millj.kr, laus kennslustofa kosti nálægt 50 millj.kr og aðlögun á húsnæði MTR innan við 10 millj.kr.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að hafa forgöngu um forhönnun viðbyggingar við starfsstöð grunnskólans í Ólafsfirði, áætla kostnað og leggja fyrir bæjarráð svo fljótt sem verða má.