Guðbjörn Jónsson sendi Trölla þennan pistil fyrir skemmstu, í framhaldi þess að Trölli birti launaseðil öryrkja.

Ég sá að þið birtuð launaseðil öryrkja, og ekki vanþörf á: En það er fleira sem er ábótavant.

Hagstofan kemur reglulega með sundurliðun velferðarútgjalda. Þar er einn liður sem heitir: ÖLDRUN Á MANN.

Einn af nokkrum liðum samtölunnar ÖLDRUN, er lífeyrir eldri borgara. Ég tók saman þessar upplýsingar yfir langan tíma og bar saman við neysluvísitölu. En samkvæmt lögum á lífeyrir aldraðra ALDREI að hækka minna en sem nemur breytingu á neysluvísitölu.

Á meðfylgjandi grafi má sjá mismuninn. Lífeyrir aldraðra er RAUÐA STRIKIÐ. Hitt er vísitala neysluverðs.

Athyglisverður munur?? Munur sem á ekki að vera til, samkvæmt lögum.

Guðbjörn vísar til laga um almannatryggingar nr. 100/2007, en í 69. grein þeirra laga segir:

“Bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr., skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.”

Þarna kemur skýrt fram að hækkun lífeyris má ALDREI verða minni, á ársgrundvelli, en breyting verðlags og breyting á neysluvísitölu.

Meðfylgjandi er vísitöluskrá frá Hagstofunni yfir allar helstu vísitölur. Bláa línan á myndinni hér að ofan er byggð upp með mánaðarlegum tölum neysluvísitölu samkvæmt þessari skrá.

Guðbjörn heldur áfram og segir:

Ég ber alltaf saman neysluvísitölu og liðinn ÖLDRUN í flokkunarkerfi Hagstofunnar. Að vísu er hægt að fá þennan flokk á ýmsan veg upp hjá Hagstofunni, en ég gæti þess alltaf að taka ÖLDRUN út frá frumflokkun „Útgjöld ríkissjóðs til almannatrygginga og velferðarmála (ártöl)“
[Excelskrá hér neðar á síðunni]

Sú Excelskrá sem ég tek svona út er búin til af kerfi Hagstofunnar. Þegar ég hef skilgreint hvaða upplýsingar ég vil fá og kerfi Hagstofunnar býr til skrána, bjóða þeir uppá að breyta í Excelskrá.
Þessi útgjaldaskrá ríkisins er með fjölmörgum ólíkum upplýsingum, horft frá mörgum sjónarhornum.  Í þessu verkefni fór ég inn á liðinn ÖLDRUN Á MANN og fór þar í undirflokkinn ÖLDRUN. 

Hafa þarf í huga að allar tölur eru sama verðgildis, árinu á undan því síðasta í listanum. Það þýðir að ekki þarf að reikna inn breytingar vegna verðlags, því það hefur verið gert. Breytingarnar hafa samt aldrei verið miðaðar við breytingar neysluvísitölu, heldur þá hækkun sem leyfð var.

Varðandi liðinn ÖLDRUN, er rétt að geta þess að hann er samtala yfir 6 flokka, þar sem einungis 3 eiga við greiðslu lífeyris. Hitt eru vasapeningar, barnalífeyrir og svo Aðrar bætur vegna öldrunar. Ellilífeyrir í beinni greiðslu til lífeyrisþegar (Rauðu tölurnar)  koma út með að vera c. a. 76,8% af liðnum ÖLDRUN, sem er notaður í línumyndinni. Ef svo nákvæmlega hefði verið farið í útfærsluna hefði samanburður við neysluvísitölu heldur versnað.

Svo eru náttúrlega fleiri fletir á þessu.

Við skulum líta fyrst á þann augljósari. Í framfærslugrunni ellilífeyris, er ENGIN UPPHÆÐ VEGNA  HÚSNÆÐIS.   Ég hef bent mörgum Félagsmálaráðherrum á þetta. Allir viðurkenna að sjá þetta og það sé ólíðandi. Sama er að segja um þingmenn og forystufólk í stéttarfélögum. ENGINN þorir að hreyfa við þessu.   

Hinn þátturinn er dálítið lögfræðilegt atriði, sem felst í því að AFTAN VIÐ LASGATEXTAN SJÁLFAN, var í upphafi settur liður undir nafninu: ÁKVÆÐI TIL BRÁÐABIRGÐA. Þar voru sett inn ýmis ákvæði varðandi aðlögun að breytingum sem verið  væri að framkvæma. Þessi flokkur: ÁKVÆÐI TIL BRÁÐABIRGÐA, væri ekki lagatexti í skilningi laga, heldur skýring. 

Þessi flokkur hefur mjög gróflega verið brotinn, einkanlega gegn öryrkjum og öldruðum þar sem allar skerðingar á löglegum hækkunum lífeyris, hafa verið gerðar með viðbótartexta, utan lagatexta. EN í lagatextanum sjálfum hefur alla tíð staðið að  hækkun skuli ALDREI vera lægri en nemi breytingu á vísitölu neysluverðs.

Fylgigögn:
Öldrun sundurliðuð
Útgjöld ríkissjóðs til almannatrygginga og velferðarmála 1998-2015


Mynd: pixabay