Indverskur korma kjúklingur og nan-brauð

  • 500 g kjúklingalundir
  • 1 lítill laukur, skorinn í þunnar sneiðar
  • 1 tsk rifið engifer
  • 1 tsk hvítlauksmauk (eða 1-2 hökkuð hvítlauksrif)
  • 1 krukka korma sósa (ég nota sósuna frá Patak´s, það eru 450 g. í krukkunni)
  • Ristaðar kasjúhnetur

Hitið olíu á pönnu við miðlungshita og mýkið laukinn. Bætið hvítlauk, engifer og kjúklingalundum á pönnuna og steikið í um 5 mínútur eða þar til kjúklingurinn er kominn með steikingarhúð en er ekki full eldaður. Bætið sósunni á pönnuna og látið sjóða við vægan hita undir loki í 10 mínútur. Hrærið af og til í pönnunni á meðan.


Nan-brauð

  • 1,5 dl fingurheitt vatn
  • 2 tsk sykur
  • 2 tsk þurrger
  • 4 dl hveiti
  • 0,5 tsk salt
  • 2 msk brætt smjör
  • 2 msk hreint jógúrt
  • Garam Masala (má sleppa)
  • gróft salt, t.d. Maldon (má sleppa)

Hrærið saman geri, vatni og sykri. Leggið viskastykki yfir skálina og látið standa í 10 mínútur.

Bætið hveiti, salti, smjöri og jógúrt saman við og hnoðið saman í deig. Leggið viskastykki yfir skálina og látið deigið hefast í 30 mínútur.

Skiptið deiginu í 4-6 hluta (eftir hversu stór þú vilt að brauðin verði) og sléttið út í aflöng brauð (það þarf ekkert kökukefli, hendurnar duga vel). Mér þykir gott að krydda brauðin með garam masala og grófu salti áður en ég steiki þau. Bræðið smjör á pönnu við miðlungshita og steikið brauðið í 3-4 mínútur áður en því er snúið við og steikt áfram í 2-3 mínútur.

Uppskrift: Ljúfmeti og lekkerheit