Forsætisráðuneytið og Félag kvenna í atvinnulífinu (FKA) hafa gert með sér samning um stuðning stjórnvalda við verkefnið Jafnvægisvogina.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Rakel Sveinsdóttir, formaður stjórnar FKA, undirrituðu samning þess efnis í Stjórnarráðinu.

Markmið verkefnisins er að stuðla að jafnari hlut kvenna og karla í stjórnum og framkvæmdastjórnum fyrirtækja í samræmi við ákvæði laga um hlutafélög nr. 2/1995 og einkahlutafélög nr. 138/1994 sem kveða á um 40-60 kynjahlutfall.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:

„Þrátt fyrir góða stöðu jafnréttismála á Íslandi í alþjóðlegum samanburði þá sýnir staða kvenna í stjórnendastöðum að það er svigrúm til að gera mun betur í fyrirtækjum með 50 starfsmenn eða fleiri og innan 100 stærstu fyrirtækja landsins. Félag kvenna í atvinnulífinu gegnir mikilvægu hlutverki við að bæta stöðu og hlut kvenna í íslensku atvinnulífi og með verkefninu er verið að virkja fyrirtæki til samstarfs um að gera betur. Nú þegar hafa um 50 fyrirtæki lýst sig reiðubúin til þess. Það er mér sem ráðherra jafnréttismála ánægjuefni að leggja góðu starfi FKA lið.“

Meginmarkmið samningsins er að gera FKA kleift að vinna áfram að því að safna og samræma tölulegar upplýsingar um hlut kvenna og karla í stjórnum og framkvæmdastjórnum fyrirtækja í eigu einkaaðila og hins opinbera. Þá verður mælaborð Jafnvægisvogarinnar uppfært reglulega, fræðsla veitt um mikilvægi fjölbreytileika í stjórnum og stjórnendateymum og kynningar haldnar á mælaborðinu og markmiðum verkefnisins fyrir fyrirtæki, stjórnvöld og almenning. Einnig verður fyrirtækjum fjölgað til liðs við verkefnið og Jafnvægisvogar-viðurkenningu veitt til þeirra sem náð hafa markmiðum verkefnisins um jafnari hlut kvenna og karla.

Samningurinn gildir í eitt ár og greiðir forsætisráðuneytið FKA fimm milljónir króna til að sinna þeim verkþáttum sem samningurinn tekur til. Framkvæmd verkefna samkvæmt samningnum fer fram í nánu samráði við skrifstofu jafnréttismála í forsætisráðuneytinu.

Nánari upplýsingar um verkefnið og mælaborðið má finna á vefsíðu FKA.

Af stjornarradid.is

 

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Rakel Sveinsdóttir, formaður stjórnar FKA, undirrita samninginn