Covid-19 hefur enn klærnar í samfélaginu þó vel gangi að bólusetja landsmenn. Nokkur hópsmit hafa að undanförnu verið mikið í fréttum og nú síðast hefur athyglin beinst að Þorlákshöfn segir á vefsíðu Feykis. Lið Tindastóls og Þórs frá Þorlákshöfn mættust í Síkinu sl. sunnudag og eflaust hafa einhverjir í ljósi síðustu frétta velt fyrir sér hvort smit hafi mögulega borist norður yfir heiðar. Stefán Vagn Stefánsson, formaður Almannavarnateymis Norðurlands vestra, segir ekki vitað um neina tengingu á milli hópsmitsins og leikmannahóps Þórs og því ekki ástæða til ótta. „Hinsvegar er alltaf möguleiki á smiti burtséð frá þessu og því mikilvægt að fara varlega og fylgja fyrirmælum almannavarna um sóttvarnir,“ sagði Stefán Vagn í samtali við Feyki.

Feykir spurði Stefán einnig hvort ástæða þætti til að senda leikmenn Tindastóls í skimun og hverjir tækju ákvarðanir um slíkt. „Það er smitrakningarteymið sem heldur utan um hverjir eru sendir í sóttkví og test. Engin slík beiðni hefur komið eftir umræddan lék mér vitanlega svo væntanlega er ekki nein tenging á milli hópsmitsins og leikmannahóps Þórs,“ segir Stefán Vagn.

Það er því ekki ástæða til að óttast en fólki er að sjálfsögðu bent á að halda áfram að fara að öllu með gát; nota grímurnar, spritta hendur og passa upp á fjarlægðarmörkin.

Samkvæmt tölum á Covid.is þá voru 177 í einangrun á Íslandi vegna Covid-19, 443 í sóttkví og 917 í skimunarsóttkví. Fjórir voru á sjúkrahúsi en búið var að full bólusetja hátt í 33 þúsund manns. Sjá nánar á Covid.is