“Alltaf gaman að skoða langtímaspárnar” segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur á facebook síðu sinni, en þær eru reiknaðar sérstaklega í Evrópsku reiknimiðstöðinni (ECMWF) tvisvar í viku.

Nú eru línur hreinar. Þessa vikuna eða frá 6. til 12. maí er spáð nokkuð klárum kulda. Fyrra kortið sýnir háloftastrauminn í 500 hPa (heildregnu línurnar) og frávik loftmassahitans (þykktin). N-átt og heimskautaloft í háloftadraginu. Hér við yfirborð strekkings NA-átt, hvimleið og með næturfrostum a.m.k. norðan- og austantil svona um miðjan sauðburðinn. Í sjálfu sér samt ekki svo óalgeng veðrátta framan af maí.

En flestar tölvuspárnar gera ráð fyrir hreinum straumhvörfum mánudaginn 13. maí. Þá hitaskil úr suðri. “Opnar” fyrir frekara aðstreymi úr suðri og mild SA- og S-átt í kjölfarið.

Þessi tvö spákort eru eins og svart og hvítt. Það sem gerist um helgina að suðvestur í höfum rís bylgja og með henni vaxandi lægð. Með því móti er hlýloftinu komið sunnan að, þvingað til norðurs. Spurning hvað verður með bylgjuna. Mögulega fer hún áfram til austurs inn yfir Rússland og koðnar þar niður. Möguleiki er einnig á að hún staðnæmist um tíma í dálitla fyrirstöðuhæð yfir Bretlandseyjum. Meðalkortið fyrir næstu viku, allt til 19. maí er einmitt á þeirri línunni.

Sjá nánar um veðurspár Einars Sveinbjörnssonar á Blika.is