Fræðslunefnd Blönduósbæjar krefst úrbóta á aðstöðu fyrir smíðakennslu við Blönduskóla og leggur til að unnin verði 3-5 áætlun um uppbyggingu skólahúsnæðis með tilliti þeirrar aðstöðu sem vantar og þurfi að bæta. Í fundargerð nefndarinnar frá 3. október síðastliðnum er nefndin nokkuð harðorð í garð sveitarfélagsins þar sem hún bendir á að Blönduósbær hafi nú þegar fengið áminningu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu vegna skorts á smíðakennslu og að á síðasta ári hafi verið lofað úrbótum sem enn hafi ekki verið staðið við.

Nefndin vill að í áætluninni verði gert ráð fyrir aðstöðu fyrir smíðakennslu og heimilisfræði auk þess að komið verði upp betri aðstöðu fyrir textílmennt og myndmennt. Þá telur nefndin að rétt væri að skoða samhliða frekari viðbætur við eldhús með tilliti til þess að þar yrði rekið fullbúið mötuneyti og skóladagheimili stækkað.

Samhliða áætluninni krefst fræðslunefnd þess að komið verði upp kennsluaðstöðu í smíðum til bráðabirgða svo hægt verði að kenna smíðar meðan á uppbyggingu fyrrgreindar aðstöðu stendur.

 

Af huni.is
Mynd: af netinu