Ægir Ólafsson kom færandi hendi fyrir hönd Sjómannafélags Ólafsfjarðar og afhenti Fjallabyggð þakklætisvott fyrir styrk, sem Sjómannafélagið hefur fengið frá bæjarfélaginu til að standa að hátíðarhöldum í Ólafsfirði á sjómannadag, en það hefur verið gert með afar myndarlegum og fjölbreyttum hætti. Sigríður Ingvarsdóttir bæjarstjóri og Ríkey Sigurbjörnsdóttir deildarstjóri fræðslu-, frístunda- og menningarmála tóku við þakklætisvottinum fyrir hönd Fjallabyggðar.

Þess má geta að á næsta ári mun Sjómannafélag Ólafsfjarðar fagna fertugsafmæli sínu 26. janúar 2023. Ætlunin er að minnast tímamótanna á ýmsan hátt á afmælisárinu, ekki síst með hátíðarhöldum sjómannadagsins þar sem meðal annars sjómenn verða heiðraðir á hefðbundinn hátt og keppt verður um Alfreðsstöngina góðu, verðlaunagrip sem á sér sögu á þessum vettvangi í byggðarlaginu allt frá árinu 1955.

Mynd Fjallabyggð / Á myndinni eru þau Ægir Ólafsson, Ríkey Sigurbjörnsdóttir og Sigríður Ingvarsdóttir