Unnur Valborg Hilmarsdóttir framkvæmdastjóri SSNV hélt á dögunum erindi um framkvæmd sóknaráætlana á ráðstefnu í Wales.

Ráðstefnan var haldin á vegum OECD og var hugsuð fyrir Welska ráðamenn. Í Wales er uppi nokkur óvissa um fjármagn til svæðisbundinnar þróunar vegna Brexit en stór hluti fjármuna í slík verkefni hefur komið frá Evrópusambandinu. Einnig er vilji til að leita leiða til að marka skýrari stefnu í landinu í tengslum við byggðaþróun og einfalda stjórnsýslu málaflokksins. Á ráðstefnunni héldu fulltrúar OECD  erindi en þeir hafa verið Welsku ríkisstjórninni til ráðgjafar um framangreind verkefni. Til ráðstefnunnar voru jafnframt fengnir erlendir sérfræðingar til að halda erindi um stefnumótun svæðisbundinnar þróunar og framkvæmd hennar á þeirra svæðum og var Unnur í þeirra hópi, hinir voru frá Þýskalandi, Svíþjóð og Írlandi en sérstaklega var beðið um erindi frá Íslandi þar sem framkvæmd sóknaráætlana landshlutanna þykir áhugaverð leið sem reynst hefur vel.

Að sögn Unnar var ráðstefnan í heild áhugaverð. Ánægjulegt hafi verið að sjá að til Íslands er litið sem dæmi um árangursríka framkvæmd og ljóst að nokkur árangur hefur náðst í einföldun í málaflokkunum, aukins gegnsæis í meðförum þeirra og ekki síst þátttöku íbúa í mörkun stefnu landshlutanna og framkvæmd hennar.

 

ssnv.is