Eins og íbúar Dalvíkurbyggðar hafa eflaust orðið varir við standa ýmsar framkvæmdir yfir á vegum sveitarfélagsins nú í sumar. Framkvæmdir fóru aðeins seinna af stað en áætlað var vegna veðurs í júní en vonandi verður haustið okkur gott. Hérna er aðeins stiklað á stóru yfir framkvæmdir ársins með ákveðnum fyrirvörum.

Krílakot
Þann 15. júlí sl. hófust framkvæmdir við leikskólalóðina á Krílakoti. Unnið er að því að stækka leiksvæðið til austurs, girða það upp á nýtt og endurnýja allt leiksvæðið og leiktækin. Áætluð verklok á þessu stóra verkefni eru þann 1. nóvember nk. Meðan á verkinu stendur er aðgengi leikskólabarna að svæðinu takmarkað og verður reynt að leysa úr því með uppsetningu á tímabundnu leiksvæði milli Krílakots og Dalbæjar.

Samhliða þessu hefur einnig verið unnið að breytingum á bílastæðinu við Krílakot með það að markmiði að fjölga bílastæðum og bæta úr öryggismálum.

Götur
Í júní var nýtt malbik lagt yfir Goðabraut allt frá gatnamótum við Bjarkarbraut og suður úr.
Unnið er að breytingum á deiliskipulagi Hóla- og túnahverfis þar sem lóðamörkum er breytt og sveitarfélagið tekur yfir götuhlutann milli Skógarhóla 23 og 11 og líka götu framan við Skógarhóla 29. Þegar sú breyting er komin í gegn er áætlað að malbika götuna og koma upp götulýsingu.
Á framkvæmdaáætlun er endurnýjun Böggvisbrautar frá gatnamótum við Mímisveg og suður úr. Gert er ráð fyrir að það þurfi að fara í þónokkur jarðvegsskipti á þessum kafla, endurnýja og tvöfalda fráveitulagnir. Verkið er að fara í verðkönnun og verður unnið nú síðla sumars.
Á áætlun er einnig endurnýjun Karlsrauðatorgs, frá Höfn og niður á hafnarsvæði.

Gangstéttar og gangbrautir
Undanfarið hefur verið unnið að endurnýjun gangstétta við Mímisveg 2-14, suðurhluta Svarfaðarbrautar og í Dalbraut. Samhliða endurnýjun í Mímisvegi var kaldavatnslögn endurnýjuð og brunahana komið fyrir við Mímisveg 12. Í norðanverðri Grundargötu hefur einnig verið unnið að jarðvegsskiptum undir nýja gangstétt. Staðsteypa á kantstein í þessum götum og malbika gangstéttar. Áætluð verklok eru 23. ágúst nk.
Í Hringtúni er unnið að jarðvegsskiptum og undirbúningi undir malbikun þeirra gangstétta sem eftir eru. Áætluð verklok eru 23. ágúst nk.
Nú seinna í ágúst hefjast framkvæmdir við gerð nýrrar gangstéttar austan Aðalgötu á Hauganesi. Gert er ráð fyrir nýrri gangstétt með hellulögðum kantsteini allt frá Aðalgötu 2 að gamla bílaþvottaplaninu. Samhliða þessu á að malbika og ganga frá í kring um bílastæði á milli Aðalgötu 4 og 6. Áætlaður verktími er í ágúst – september.
Í Hólavegi er fyrirhugað að fjarlægja graseyjur samsíða götu að sunnanverðu og gera þar bílastæði í staðinn. Samhliða þessu er áætlað að hækka upp, breikka og helluleggja gönguþverun yfir Hólaveg við Svarfaðarbraut. Áætlaður verktími er í ágúst-september.

Göngustígar
Nú seinna í ágúst hefst vinna við breikkun og lagfæringar á afleggjaranum að Böggvisstöðum. Einnig á að setja upp átta nýja ljósastaura á afleggjaranum og að núverandi göngustíg meðfram þjóðvegi. Böggvisstaðahringurinn nýtur vinsælda sem gönguleið og með þessari framkvæmd er reynt að bæta öryggi gangandi vegfarenda.
Á opna svæðinu í Hringtúni á að ganga frá lóðamörkum við Miðtún með hleðsluvegg að hluta til. Setja á upp ljósapolla meðfram göngustíg og jafnvel malbika stíginn ef tíminn leyfir.

Önnur verkefni
Búið er að jarðvegsskipta og jafna undir nýtt bílastæði á sjávarbakkanum austan Aðalgötu á Hauganesi.
Unnið er að uppsetningu á körfuboltakörfum við Ægisgötu á Árskógssandi og við enda Ásvegar á Hauganesi.
Endurnýja á leiktæki á leikvellinum í Skógarhólum. Verkefnið hefur tafist vegna deiliskipulagsbreytinga í hverfinu.
Svo á að setja upp ungbarnarólur í Skógarhólum, á Árskógssandi og í Öldugötu nú í ágúst.

Mikið er um að vera og vonandi verður haustið milt þannig að hægt verði að klára þessar framkvæmdir sem farnar eru af stað eða eru á áætlun.