Markmið Skapandi Evrópu (e. Creative Europe) er að efla listsköpun og koma samstarfi milli listastofnana og listamanna í Evrópu. Sem kvikmynda- og menningaráætlun Evrópusambandsins styður hún fjölbreytt verkefni, m.a. íslenskra listamanna og fagfólks í skapandi menningargreinum. Tilkynnt hefur verið um góðan árangur íslenskra umsækjenda innan geira kvikmynda og margmiðlunar á tímabilinu 2014-2020 og nema þeir styrkir til íslenskra umsækjenda rúmlega 1,3 milljörðum kr.
Í ár fengu íslensk verkefni alls 354 milljónir kr. í styrki úr þeim hluta áætlunarinnar (e. MEDIA), sem er hæsta upphæð frá árinu 1992 þegar Íslendingar hófu þátttöku sína. Þar á meðal voru þrjár sjónvarpsþáttaraðir; Verbúð, Vitjanir og Systrabönd og fjórar kvikmyndir; Afturelding, Vera and the Third Stone, Northen Comfort og Varado – Curse of the Gold.
Þá hlutu einnig 12 íslenskar menningarstofnanir og félög styrki frá Skapandi Evrópu, alls um 170 milljónir kr. og þrjú samstarfsverkefni með íslenskum þátttakendum hlutu alls 45 milljón kr. styrk. Sjá nánar í fréttatilkynningum Rannís um málið.
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra:
„Íslensk kvikmyndagerð á góðu gengi að fagna og fyrr í vetur kynntum við fyrstu heildstæðu íslensku kvikmyndastefnuna, en þar er bæði horft til kvikmyndagerðar sem listforms og mikilvægrar atvinnugreinar. Nú vinnum við ötullega að ýmsum aðgerðum stefnunnar, þar á meðal að því að koma á háskólanámi í kvikmyndagerð og nýjum fjárfestingasjóði fyrir sjónvarpsefni.“
Lögaðilar á lista- og menningarsviði sem starfað hafa í minnst 2 ár geta sótt um styrki til Skapandi Evrópu. Styrkirnir skiptast í fjórar tegundir.
Ný menningaráætlun Skapandi Evrópu hefst í vor en heildarfjárframlög til áætlunarinnar hafa verið hækkuð um 50%. Umsóknafrestir verða auglýstir á vef Rannís í maí.
Mynd: Juliette Rowland / Glassriver