Þegar Síldarævintýrið var sett af stað aftur árið 2019 voru markmiðin fyrst og fremst tvö; að kynna og sýna allt það helsta sem Siglufjörður hefur upp á að bjóða og að gefa bæjarbúum tækifæri til að koma saman og eiga góðar stundir. 

Ein leið til að uppfylla síðara markmiðið var að hvetja íbúa til að hafa götugrillveislur í sínum hverfum þ.s. skipuleggjendur Síldarævintýrisins útveguðu hráefnið en íbúar sáu um framkvæmdina. Tókst sérlega vel til fyrstu tvö árin en síðan setti Covid strik í reikninginn og í fyrra náðist ekki upp sama stemning og fyrstu árin og þátttaka mun minni en áður.

Því hefur verið tekin sú ákvörðun að hafa í ár eitt sameiginlegt grill fyrir alla bæjarbúa og hafa bæjaryfirvöld veitt leyfi til að hafa það á skólabalanum. Vonast skipuleggjendur hátíðarinnar í ár til þess að íbúar taki vel í þessa nýbreytni og fjölmenni og eigi góða stund saman. 

Stefnt var að því að gefa dagskrá Síldarævintýrisins út í dag en enn á eftir að hnýta nokkra lausa enda og mun hún því birtast á morgun. Eitt er þó víst að hún verður glæsileg og börnin munu hafa nóg fyrir stafni. Lögð hefur verið rík áhersla á að setja saman fjölbreytta dagskrá fyrir þau og að sú dagskrá sé ókeypis. Það hefur tekist með góðri aðstoð frá Fjallabyggð og ýmsum fyrirtækjum.