Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur skipað nefnd í tengslum við heildarendurskoðun laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum. Formaður nefndarinnar er Friðrik Már Sigurðsson, formaður byggðarráðs Húnaþings vestra og fulltrúi í félagsþjónustunefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Aðrir nefndarmenn eru Bjarnheiður Gautadóttir, skrifstofustjóri vinnumarkaðar og starfsendurhæfingar hjá félagsmálaráðuneytinu, Maríanna Traustadóttir tilnefnd af Alþýðusambandi Íslands, Andri Valur Ívarsson tilnefndur af Bandalagi háskólamanna, Magnús Már Guðmundsson tilnefndur af BSRB, Bryndís Gunnlaugsdóttir tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Hlynur Hreinsson tilnefndur af fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Álfheiður Mjöll Sívertsen tilnefnd af Samtökum atvinnulífsins og Unnur Sverrisdóttir tilnefnd af Vinnumálastofnun.
Nefndin mun hafa það hlutverk að endurskoða lögin í heild sinni og vinna frumvarp þar sem meðal annars verði brugðist við fyrirliggjandi álitum frá umboðsmanni Alþingis. Jafnframt er gert ráð fyrir að í frumvarpinu verði kveðið á um lengingu á samanlögðum rétti foreldra til fæðingarorlofs í tólf mánuði vegna barna sem fæðast, verða ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2021 eða síðar. Er það í samræmi við stefnu stjórnvalda þess efnis að efla fæðingarorlofskerfið en í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að samanlagður réttur foreldra til fæðingarorlofs verði lengdur. Fyrsti hluti þess kemur til framkvæmda um næstu áramót þegar réttur foreldra til fæðingarorlofs verður lengdur úr níu mánuðum í tíu. Gert er ráð fyrir að vinnu nefndarinnar ljúki á haustmánuðum árið 2020 þannig að unnt verði að leggja fram frumvarp á haustþingi það ár.
„Árið 2020 verða tuttugu ár liðin frá gildistöku laganna. Af því tilefni er við hæfi að þau verði endurskoðuð í heild. Lögin voru á margan hátt byltingarkennd á sínum tíma enda var Ísland fyrsta landið í heiminum til að veita feðrum og mæðrum jafnan sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs. Margt hefur áunnist í þessum efnum á undanförnum árum en enn er þó rúm til að gera betur auk þess sem nauðsynlegt er að endurskoða ýmsa þætti laganna í takt við tímann,“ segir Ásmundur Einar.
Af: stjornarradid.is