Framkvæmdir standa nú yfir við að koma upp aðstöðu til að leika frisbígolf við tjaldsvæðið og tjörnina í Ólafsfirði. Búið er að setja upp nokkrar körfur og liggja brautirnar milli Tjarnarborgar og íþróttamiðstöðvarinnar.

Óhætt er að prófa völlinn, svo fremi sem ekki sé verið að vinna í honum. Ennþá á eftir að setja upp nokkrar körfur, merkja brautir og setja upp vallarskilti og fleira. Gestir geta vænst þess að völlurinn verði að fullu tilbúin með níu brautum í sumar og verður opnun hans auglýst.

Frisbígolf eða folf er skemmtileg fjölskylduíþrótt, en allir sem geta kastað frisbídiski geta verið með í leiknum. Það er Íslenska frisbígolfsambandið sem sér um hönnun og uppsetningu vallarins.

Einnig er undirbúningur hafinn að tveimur viðbótarverkefnum sem framkvæmd verða í og við tjaldsvæðið. Það er minigolfvöllur sem settur verður upp í sumar og aparóla sem sett verður upp sumarið 2024. Hér er um verkefni að ræða sem valin voru úr íbúakosningunni Fegrum Fjallabyggð sem fór fram dagana 13. – 26. mars sl.

Þessi uppbygging á og við tjaldsvæðið verður mikil bót fyrir samfélagið og gesti, segir á vefsíðu Fjallabyggðar.

Mynd/Guðmundur Ingi