Trölli.is óskar lesendum sínum gleðilegs sumars, sem og öðrum landsmönnum.

Það er gaman á svona tímamótum að glugga aðeins í hvað sumardagurinn fyrsti stendur fyrir í menningu okkar íslendinga. Á Vísindaefnum má finna þessar upplýsingar.

Af hverju er sumardagurinn fyrsti haldinn hátíðlegur?

Áður en rómverska tímatalið barst hingað með kirkjunni höfðu Íslendingar komið sér upp eigin tímatali sem ekki virðist hafa verið til annars staðar. Sennilega hefur Íslendingum þótt nauðsynlegt að hafa eitthvert sameiginlegt tímaviðmið eftir að þeir settu sér eigin samfélagsreglur með stofnun Alþingis snemma á 10. öld.Rómverska tímatalið varð virkt eftir að föst skipan komst á kirkjuna með stofnun biskupsstóls eftir miðja 11. öld. Íslendingar köstuðu samt gamla tímatalinu ekki fyrir róða heldur löguðu það til svo að það lifði góðu lífi við hlið hins kirkjulega tímatals og gerir enn í vönduðum almanökum.Í stærstu dráttum var árinu skipt í tvö nær jafnlöng misseri: Vetur og sumar. Vetrarmisserið byrjaði alltaf á laugardegi og sumarmisserið á fimmtudegi. Fram til ársins 1700 var það fimmtudagurinn á bilinu 9.-15. apríl en eftir 1700 á bilinu 19.- 25. apríl.

Það er hvergi sagt berum orðum í lögum, en menn virðast hafa litið á fyrsta dag sumars sem upphaf ársins. Það sést á því að aldur manna var áður jafnan talinn í vetrum, og enn er svo um aldur húsdýra. Því var dagurinn haldinn hátíðlegur. Meðal annars er vitað um sumargjafir að minnsta kosti fjórum öldum áður en jólagjafir fóru að tíðkast. Þá var haldin matarveisla sem þótti ganga næst jólunum. Fyrsti dagur sumars var líka frídagur frá vinnu og börn fengu að fara á milli bæja til að leika sér við nágranna. Þá var hann einnig helgaður ungum stúlkum og nefndur yngismeyjadagur. Piltar máttu þá gefa í skyn hverja þeim leist á. Þetta var sambærilegt við bóndadaginn og konudaginn á fyrsta degi þorra og góu.Lengi var messað og lesinn húslestur á sumardaginn fyrsta. Það þekktist hvergi annars staðar og þegar eftirlitsmenn danskra kirkjuyfirvalda uppgötvuðu þessa sérstöðu um miðja 18. öld létu þeir banna messur á þessum degi.Eftir aldamótin 1900 gerðu ungmennafélögin sumardaginn fyrsta að helsta hátíðisdegi sínum og árið 1921 var hann gerður að stuðningsdegi fyrir börn í Reykjavík og eftir það oft nefndur barnadagurinn.

Texti: Kristín Sigurjónsdóttir og Vísindavefurinn
Mynd: Kristín Sigurjónsdóttir