Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, var viðstaddur opnun Spoex á ljósameðferðarstofu fyrir psoriasis- og exem sjúklinga á Akureyri mánudag sl. 4.  Starfsemin er til húsa hjá Læknastofum Akureyrar á Glerártorgi en þar er nú boðið upp á UVB ljósameðferð undir eftirliti sérfræðings í húðsjúkdómum ásamt ráðgjöf og fræðslu.

Undanfarið hefur verið unnið að því að tryggja framtíð ljósameðferðar á Akureyri, þ.e. meðferð í ljósaklefa við húðsjúkdómum/vandamálum. Meðferðin stóð einstaklingum til boða á Sjúkrahúsinu á Akureyri þar til nýlega og ljóst var að tækjabúnaðurinn þarfnaðist endurnýjunar.

Til að tryggja áframhald á þessari mikilvægu þjónustu á Akureyri var 9 milljónum króna veitt til félagsins til kaupa á nýjum ljósaskáp sem og nýju fóta- og handaljósatæki. Ljósameðferð hefur reynst mörgum vel og er þjónusta SPOEX veitt samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands. 

Psoriasis er langvinnur bólgusjúkdómur þar sem ónæmiskerfi einstaklingsins byrjar að mynda mótefni gegn eigin frumum. Einkennin birtast yfirleitt í húð sem rauðar upphleyptar skellur þaktar hvítu hreystri, með kláða og jafnvel verkjum. Sjúkdómurinn getur einnig komið fram í liðum, sem psoriasis gigt, eða í líffærum. Árið 2014 skilgreindi Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) psoriasis sem „alvarlegan, sársaukafullan, hamlandi og ólæknandi sjúkdóm“ og samkvæmt rannsóknum Alþjóðahreyfingar psoriasis samtakanna, IFPA, hefur sjúkdómurinn áhrif á daglegt líf hjá 60% þeirra sem greindir eru með hann og telja tæplega 80% sig hafa mætt fordómum vegna sjúkdómsins. Ýmsar meðferðir eru til við sjúkdómnum en engin lækning hefur fundist.