Á 1207. fundi byggðarráðs Húnaþings vestra sem fram fór 4. mars 2024 var staðfestur samningur við menningar- og viðskiptaráðuneytið vegna tilmæla fjárlaganefndar um stuðning vegna endurbóta á Félagsheimilinu Hvammstanga. 

Endurbætur á Félagsheimilinu eru löngu tímabærar en fyrir liggur úttekt á ástandi hússins sem unnin var árið 2020. Ráðgert er að ráðast í endurnýjun þaks í sumar. 

Stuðningur við framkvæmdir nú koma til vegna áforma um uppsetningu samfélagsmiðstöðvar í húsinu fyrir ungmenni og aðra íbúa sveitarfélagsins. Ráðinn verður starfsmaður sem vinna mun með ungu fólki og hafa jafnframt umsjón með þróun samfélagsmiðstöðvarinnar. Einnig hefur fengist styrkur til kaupa á tækjum í tæknismiðju í anda FabLab smiðja.  

Félagsheimilið Hvammstanga var byggt af miklum stórhug og formlega vígt árið 1969. Húsið er teiknað um eða upp úr 1960 af Bárði Daníelssyni verkfræðingi og arkitekt sem var nokkuð áberandi sérstaklega á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar og eru til eftir hann margar vandaðar og eftirtektaverðar byggingar. Segja má að húsið sé nokkurskonar hjarta í samfélaginu og því hefur samfélagsmiðstöðin fengið vinnuheitið Hjartað í Húnaþingi vestra. Það er mikið fagnaðarefni að með framkvæmdum í sumar verður stigið skref í átt að því að færa þetta glæsilega hús til fyrri vegs og virðingar.