Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur sett nýjar úthlutunarreglur fyrir Menntasjóð námsmanna. Þær kveða meðal annars á um að frítekjumark námsmanna verði 2,2 milljónir króna á ári. Frítekjumarkið hafði áður verið 1.622.000 kr. og nemur hækkunin því 35 prósentum.

Þá hækkar framfærsla námsmanna um 8,7% á milli skólaára til að mæta verðlagshækkunum.

Hækkun frítekjumarksins hefur veruleg áhrif á kjör námsmanna. Námsmaður sem var með 2,2 m.kr. í launatekjur eða meira í fyrra mun auka ráðstöfunartekjur sínar um 260 þúsund krónur. Mánaðarlega gera það um 29 þúsund krónur á níu mánaða skólaári.

Áslaug Arna segir breytingarnar mikilvægar. „Breytingin sem við kynnum í dag gefur nemendum aukið frelsi og val til að stunda aukna vinnu á skólaári án þess að það bitni á kjörum þeirra hjá sjóðnum og gerir hann því ákjósanlegri fyrir fjölda námsmanna.“

„Við erum að vinna að ýmsum betrumbótum á Menntasjóðnum, enda er markmiðið okkar að sjóðurinn stuðli að jöfnum tækifærum til náms. Nýlega kynntum við brotthvarf ábyrgðarmannakerfisins sem og aukinn sveigjanleika til að öðlast námsstyrk og þá er áframhaldandi endurskoðun fyrirhuguð,” segir ráðherra.

Nýju úthlutunarreglurnar gilda fyrir skólaárið 2024-2025. Þær byggja á tillögum stjórnar Menntasjóðs námsmanna sem samþykktar voru á stjórnarfundi 28. febrúar síðastliðinn.

Með nýju reglunum geta lánþegar Menntasjóðsins haft 2,2 milljónir króna í árstekjur án þess að til tekjuskerðingar komi. Ef veitt eru makalán hækkar sameiginlegt frítekjumark námsmanns og maka í 3,3 milljónir króna, en það hafði áður verið 2.433.000 krónur.

Þá hækkar framfærsla námsmanna um 8,7% á milli skólaáranna 2023-2024 og 2024-2025 til að mæta verðlagshækkunum. Samkvæmt breytingunni verður framfærsla einstaklings í leigu- eða eigin húsnæði kr. 257.852. Framfærslan skiptist þannig að lánað er fyrir mat o.fl. 162.947 kr. og 94.905 kr. í húsnæðiskostnað. Framfærsla annarra námsmanna eftir fjölskylduaðstæðum sést í meðfylgjandi töflu. Gert er ráð fyrir níu mánaða skólaári.

Nýju úthlutunarreglurnar í heild sinni má nálgast hér.

Forsíðumynd: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra

Mynd/aðsend