Í kvöld fer í loftið á Hvammstanga þátturinn Síld og fiskur sem er á dagskrá annan hvern fimmtudag kl 19 – 21.

Stjórnendur þáttarins verða Sigurvald Ívar Helgason og Birta Þórhallsdóttir, en þau eru þekkt fyrir mikið og vandað menningarstarf í Húnaþingi vestra og víðar.

Í þættinum mun kenna ýmissa grasa í orðsins fyllstu merkingu. Ætla þau skötuhjú meðal annars að skrafa bæði við sagnfræðing og landslagsarkitekt, spila almennilega tónlist, fræðast um hina alkunnu graðrót og auðvitað verður hið sívinsæla matgæðingahorn á sínum stað ásamt mörgu öðru.  #síldogfiskur #tröllifm

Hina fimmtudagana, kl 19 – 21 verða þær stöllur Elísabet og Herdís áfram með þáttinn sinn Elísadís, sem ætti að vera hlustendum FM Trölla kunnugur.

 

Stúdíó FM Trölla á Hvammstanga er staðsett í Holti á heimili þáttarstjórnenda

 

Frétt: Kristín Sigurjónsdóttir
Forsíðumynd: Kristín Sigurjónsdóttir
Mynd í frétt: Sigurvald Ívar Helgason