Það er ávallt nóg um að vera í Hrísey og gerir Ásrún Ýr Gestsdóttir því góð skil með vikulegum pistlum á Hrísey.is.
Gaf hún Trölla.is góðfúslegt leyfi til þess að birta Föstudagsfréttir frá Hrísey.
Köld vika er að líða hér í Hrísey. Frostið hefur bitið og vindurinn slegið síðustu daga.
Ungmennafélagið Narfi hélt aðalfundinn sinn í hlýjunni í Íþróttamiðstöðinni þriðjudaginn 16.janúar. Farið var yfir störf síðasta árs og óhætt er að segja að félagið sé öflugt, standi vel að starfi fyrir bæði börn og fullorðna með opnum tímum í íþróttahúsinu, samstarfi við Akureyrarbæ og félagsmiðstöðvar, rafíþróttaæfingar fyrir unglinga og flottum viðburðum hér í Hrísey. Fundurinn ræddi tillögur um hvernig hægt væri að halda upp á afmæli UMFN, en félagið fagnar 60 ára afmæli í febrúar. Miðað við hversu dugleg stjórnin hefur verið að halda úti starfi og viðburðum, þá er enginn efi að haldið verði upp á áfangan með pompi og prakt! Mun koma sér síða hér inni á hrisey.is um Ungmennafélagið og verður þar hægt að lesa ársskýrslu formanns og fræðast um félagið og starfið. Talandi um formann, þá var kosið í stjórn og er hún eftirfarandi; Formaður er Hrund Teitsdóttir, gjaldkeri Ingólfur Sigfússon, ritari Díana Björg Sveinbjörnsdóttir og varamenn eru Jóhanna María Jóhannsdóttir og Gestur Leó Gíslason. Við óskum þeim góðs gengis í áframhaldandi góðum störfum. Áfram Narfi!
Slökkvilið Hríseyjar kom saman í vikunni til æfinga. Aðilar frá Slökkviliðinu á Akureyri mættu út í eyju og æfði okkar flottu kappa á slökkviliðsbílnum. Farið var yfir búnað og fatnað og athugað hvort eitthvað vanti eða þurfi að endurnýja. Var þetta fyrsta æfingin af fimm áætluðum á árinu. Það er í slökkviliðinu eins og annarsstaðar, uppbygging og bjartsýni fyrir komandi tímum!
Bæjarstjórn Akureyrarbæjar samþykkti akstursstyrki vegna íþrótta- og tómstundastarfs barna í Hrísey. Höfum við áður sagt frá þegar fræðslu- og lýðheilsuráð samþykkti styrkinn fyrir sitt leyti hér í föstudagsfréttum en fundargerð frá bæjarstjórn má lesa hér. Samkvæmt úthlutunarreglum getur hvert heimili fengið árlega 50.000 kr styrk vegna æfinga/tómstunda sem stundaðar eru á Akureyri, óháð fjölda barna á heimilinu sem sækja æfingar. Skilyrðin eru að barn hafi mætt að minnsta kosti á 12 æfingar á tímabilinu og búi í Hrísey.
Eins og kom fram hér á síðunni í vikunni liggur fyrir breyting á deiliskipulagi við Austurveg hér í eyjunni. Á Facebooksíðunni okkar, Hrísey, kom fram er þessi vinna gerð í kjölfarið á húsnæðisgreiningu Áfram Hrísey verkefnisins. ,,Þegar ljóst var að húsnæðisskortur væri í Hrísey fór Áfram Hrísey verkefnið af stað í að finna lausnir. Rætt var við félög og verktaka um uppbyggingu í Hrísey. Áhugasamir aðilar svöruðu öll á einn veg – við byggjum bara fjölbýlishús -. Engar fjölbýlishúsalóðir voru í Hrísey og því ljóst að frekari aðgerða var þörf. Eftir fund með skipulagssviði Akureyrarbæjar var óskað eftir breytingum á lóðum við Austurveg úr einbýlishúsalóðum í fjölbýli og hefur sú vinna tekið rúmlega ár. Eftir athugasemdir um fyrstu tillögu frá hverfisráði Hríseyjar var vinnunni haldið áfram og er nú niðurstaða hennar auglýst.
Frestur til þess að koma ábendingum á framfæri er til 1.febrúar 2024″
Þegar skipulag hefur verið staðfest eftir ábendingatímann mun Áfram Hrísey verkefnið hefjast aftur handa við að ræða við félög, verktaka og einkaaðila um uppbyggingu. Skortur á leiguhúsnæði er enn til staðar og bæði einstaklingar og fjölskyldur í tímabundum úrræðum þessa mánuðina. Við vonum að sú mikla vinna sem hefur farið fram og sú sem koma skal, muni skila sér í auknu húsnæði.
Elstu krakkarnir í félagsmiðstöðinni Draum stefna á að fara suður á Samfesting (sem nefndist Samfés á unglingstíð foreldra þeirra). Hafa krakkarnir verið að skoða fjáraflanir og eitt af því sem þeim datt í hug að gera er að bjóða upp á snjómokstur. Ásrún Ýr er starfsmaður félagsmiðstöðvarinnar og mun hún taka við moksturs-pöntunum í síma 866-7786 en á snjómiklum dögum ganga krakkarnir um þorpið og bjóða upp á þjónustu sína. Endilega heyrið í þeim ef ykkur langar að njóta þess að drekka heitan kaffisopan inni og horfa á þau moka þig út út um gluggan!
Spáð er hlýindum um helgina. Ekki að það þyrfti mikið til. Hiti verður rétt neðan við frostmark, sem hljómar eins og sólstrandarveður miðaða við síðustu daga. Örlítil ofankoma gæti orðið á laugardegi en annars er vindur um 4m/s og skýjað að mestu.
Forsíðumynd/Ingólfur Sigfússon brosir við æfingar í frostinu