Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, hafa undirritað samkomulag um fjárveitingu til að hefja undirbúning og uppbyggingu húsnæðis sem hýsir færni- og hermisetur við Háskólann á Akureyri. Fjárveitingin er 200 m.kr. og styður hún við markmið skólans um nemendafjölgun og sérstaklega nemendum í hjúkrunarfræði. Stefnt er að því að nýtt færni- og hermisetur taki til starfa haustið 2026.

,,Sú ákvörðun að hefja uppbyggingu fyrir nýtt færni- og hermisetur við Háskólann á Akureyri eru mikil tímamót og forsenda þess að skólinn geti fjölgað nemendum í heilbrigðisvísindum á Íslandi,” segir Áslaug Arna um undirritun samkomulagsins við HA.

Færni- og hermikennsla felst í að herma, með tæknibúnaði eða leiknum sjúklingum, eftir raunverulegum aðstæðum, aðgerðum eða inngripum í öruggu umhverfi. Þetta er gert með leiðbeinanda, án þess að heilsu sjúklings sé stefnt í hættu. Áslaug Arna segir að ein helsta hindrunin í námi í heilbrigðisvísindum hafi verið klíníska námið, þ.e. starfsnámið á sjúkrahúsunum.

,,Því miður er það svo að sjúkrahúsin hafa hvorki aðstöðu né mannskap til að taka á móti fleiri nemendum í heilbrigðisvísindum. Færni- og hermisetrinu er ætlað að leysa þann vanda og við bindum einnig vonir við að það efli símenntun heilbrigðisstétta og ýti þannig undir innleiðingu nýsköpunar og tækninýjunga í heilbrigðisþjónustu.”

Öflugt færni- og hermisetur forsenda fjölgunar nemenda í heilbrigðisvísindum

Nýtt færni- og hermisetur eykur gæði og tækifæri til heilbrigðisnáms á landsbyggðinni. Með stækkun á kennsluhúsnæði gefst færi á að taka við fleiri nemendum og aldrei hafa fleiri nemendur stundað staðnám við Háskólann á Akureyri.  Að sögn rektors HA mun færni- og hermisetur sem komið er í fulla notkun koma til móts við þá fjölgun sem nú þegar er orði og gefa möguleika á enn frekari fjölgun nemenda.Uppbygging færni- og hermiseturs fellur undir forgangsaðgerðir í þágu heilbrigðismenntunar sem háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og heilbrigðisráðherra lögðu sameiginlega fram til að mæta aukinni mannaflaþörf í heilbrigðiskerfinu og efla heilbrigðismenntun. Í samningi um verkefnið kemur fram að mikilvægt sé að bæði í Reykjavík og á Akureyri sé til staðar grunnbúnaður fyrir færni- og hermikennslu helstu heilbrigðisstétta. Þá er áhersla lögð á árangursríka miðlun þekkingar með nýstárlegum og skilvirkum kennsluaðferðum.

Forsíðumynd/ Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskólaráðherra, og Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, við undirritun samkomulagsins.