Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra funduðu með sveitarstjórnarfulltrúum í Fjarðabyggð og Múlaþingi og kynntu þeim drög að skýrslu sem nú er í vinnslu um mat á þörf fyrir varnarvirki og viðbúnað vegna ofanflóðahættu á atvinnusvæðum á Íslandi.

Veðurstofa Íslands hefur að beiðni umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins unnið að mati á þörf fyrir varnarvirki og viðbúnað vegna ofanflóðahættu á atvinnusvæðum á Íslandi.  Kynningar verða haldnar á drögum skýrslunnar fyrir sveitarstjórnarfólk í sjö sveitarfélögum: Snæfellsbæ, Vesturbyggð, Ísafirði, Fjallabyggð, Fjarðabyggð og Múlaþingi.

Í kjölfarið verða drög að skýrslunni sett til kynningar í samráðsgátt stjórnvalda.

Ofanflóðahætta er víða á atvinnusvæðum bæði í og við þéttbýli og í dreifbýli og er skýrslunni ætlað að skapa yfirsýn yfir þann ofanflóðavanda sem við er að eiga á atvinnusvæðum í ofanflóðahættu. Varnartillögur skýrslunnar miðast við að hús verði á þeim svæðum þar sem hættan er talin mest í ofanflóðahættumati.

Guðlaugur Þór Þórðarson,  umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Bætt öryggi fólks er alltaf forgangsmál. Það er mikilvægt að sveitarfélög og ríkisvaldið hafi alltaf bestu upplýsingar sem völ er á um náttúruvá. Það verður alltaf að líta til þeirra upplýsinga þegar kemur að skipulagsvinnu og uppbyggingu varnarvirkja. Þessi skýrsla er mikilvæg í því samhengi og mikilvægt að sveitarstjórnir kynni sér efni hennar og við eigum samtal um hana í framhaldinu.“ 

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra: „Öryggi íbúa er mikilvægast af öllu. Ofanflóðavarnir skipta sköpum í bæjum og byggðarlögum víða um land. Við höfum á síðustu áratugum lagt höfuðáherslu á að verja íbúðabyggð. Slíkt hefur verið í forgangi og mun vera áfram. Náttúruvá hlýtur alltaf að vera í forgangi. Nú er þó tímabært og nauðsynlegt að huga að undirbúningi á atvinnusvæðum og skipulagi ásamt frekari upplýsingasöfnun og aukinni vöktun á snjóflóðahættusvæðum. Það er því mikill fengur að vandaðri yfirlitsskýrslu frá Veðurstofunni og eiga fundi með íbúum um niðurstöður hennar.“

Frá 1996, þegar uppbygging varnarvirkja komst í núverandi horf, hefur Ofanflóðanefnd lagt áherslu á að verja íbúðarhúsnæði í þéttbýli. Þar eru enn stór verkefni óunnin og er áætlað að lokið sé við rúmlega helming þeirra verkefna sem þarf að vinna til þess að verja öll íbúðarhús á svo nefndum C-svæðum í þéttbýli, þar sem hættan er talin mest í ofanflóðahættumati.

Forsíðumynd/Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra funduðu með fulltrúum sveitarstjórnar Múlaþings.
Mynd/aðsend