Katla Guðbjörg Gunnarsdóttir sem búsett er á Seyðisfirði er fjarnemandi í Menntaskólanum á Tröllaskaga. Hún var í Ólafsfirði um liðna helgi til að setja upp útskriftarverkefnið sitt sem sýnt verður á nemendasýningu MTR.

Fréttamaður tók Kötlu Guðbjörgu tali til að spyrja hana út í verkefnið sem hefur þunga og tilfinningaríka sögu á bakvið sig.

Það var í fyrrahaust sem Katla Guðbjörg lagði af stað í ferðalag til grísku eyjarinnar Lesbos til að taka þátt í sjálfboðastarfi til að aðstoða flóttamenn sem komu sjóleiðis frá Tyrklandi.

Þegar hún ákvað að fara í þetta kröfuharða verkefni fannst henni að þetta væri það sem átti að gerast næst í hennar lífi. Hafði hún samband við umboðsskrifstofu sjálfboðaliða sem hefur tengingu við um fimmtíu hjálparstofnanir. Sendi hún inn umsókn og var sjálfboðavinnu hennar  óskað á Lesbos.

Gríska eyjan Lesbos er í aðeins um 9 km. fjarlægð frá Tyrklandi og var Katla Guðbjörg í þeim hópi sem tók fyrst á móti flóttamönnum þegar þeir tóku land, eins var hún á dag- og næturvöktum við að fylgjast með hafinu og strandlengjunni með öflugum sjónauka til að skima efir bátum flóttamanna.

Þegar flóttamenn tóku land var unnið með yfirvöldum við fyrstu hjálp því oft voru menn kaldir og hraktir. Síðan fóru þeir í aðrar flóttamannabúðir á vegum grískra yfirvalda. Samtökin sem Katla Guðbjörg vann fyrir tók á móti um 6.543 flóttamönnum á 172 bátum árið 2018,  þar á meðal voru 40% þeirra börn. Hún er ákveðin í að fara aftur út í sjálfboðaliðastörf, en hefur ekki tekið ákvörðun um hvar hún kemur til með að starfa, enn sem komið er.

Einlæg frásögn Kötlu Guðbjargar frá sjálfboðastarfinu var áhrifamikil

Það voru tveir aðrir Íslendingar við störf á Lesbos um leið og Katla Guðbjörg dvaldi þar, það voru þær Hekla og Iðunn og varð þeim vel til vina.

Verkið sem Katla Guðbjörg sýnir á nemendasýningu MTR eru efnisbútar úr björgunarbátum sem tóku land á Lesbos, fullir af flóttamönnum. Það voru allt frá um 35 upp í rúmlega 50 manns í bátunum sem hún tók á móti.

Bátarnir eru úr gúmmíefni í allskonar litum og misstórir. Um alla eyju má finna ummerki flóttafólks, eins og gervi björgunarvesti sem óprúttnir sölumenn selja fólki í neyð og stafla af björgunarbátum sem hafa verið skornir niður í búta. Í fjörunni má finna skó, föt, barnadót og plastflöskur með þvagi.

Frá Korakas, þar sem Katla Guðbjörg stóð næturvaktirnar. Mynd/Katla Guðbjörg

 

Á vakt að fylgjast með flóttamönnum. Mynd/Katla Guðbjörg

Það eru samtök sem endurnýta gúmmíefnið og sauma allskonar hluti eins og t.d. veski og söluandvirði rennur til hjálparsamtaka sem aðstoða flóttamenn.

Uppsetning verksins í MTR eru efnisbútar af gúmmíbátum í mismunandi litum, sem settir hafa verið í ílát með sandi og sjó. Sjórinn var fenginn í fjörunni á Ólafsfirði. Ílátum svo komið fyrir á stöplum. Litir efnisbútanna eru blár, gulur, rauður og grár.

Bútur úr gúmmíbát flóttafólks

 

Hér má sjá verk Kötlu Guðbjargar í MTR