Myndir og uppskrift: : Ljúfmeti og lekkerheit
Ég datt niður á uppskrift af þessum fylltu rúnstykkjum fyrir nokkrum árum og er alltaf jafn ánægð með þau, hvort sem um hádegisverð eða léttan kvöldverð sé að ræða. Uppskriftin er svo sem hvorki merkileg né heilög en sem grunn að fyllingu er passlegt að miða við 1 egg + 1 dl af rjóma fyrir tvö rúnstykki. Síðan má krydda eftir smekk og fylla með osti og því sem hugurinn girnist. Beikon, skinka, pepperoni, sveppir, paprika, aspas… í raun bara það sem er til á heimilinu, þetta klikkar aldrei!
Aðferðin er einföld. Skerið lokið af rúnstykkinu, takið innan úr þeim þannig að það myndist góð hola og fyllið hana með osti (mér þykir gott að nota bragðmikinn ost eins og t.d. sterkan gouda) og skinku (eða öðru áleggi). Hrærið saman eggi, rjóma og kryddið með salti og pipar (hér notaði ég líka ítalskt salatkrydd sem ég átti en t.d. töfrakrydd, krydd lífsins eða hvítlaukskrydd gæti verið gott). Hellið eggjahrærunni yfir fyllinguna í rúnstykkinu (hún passar í tvö rúnstykki) og setjið smá rifinn ost yfir. Setjið lokið á rúnstykkið og pakkið því inn í álpappír. Bakið við 200° í um 30 mínútur. Berið fram heitt með góðu salati.
Uppskrift: Ljúfmeti og lekkerheit