Félagsþjónustan í Fjallabyggð stendur fyrir fyrirlestrum fyrir 60 + í Tjarnarborg Ólafsfirði.
Félagsþjónustan í Fjallabyggð hefur fengið til liðs við sig Heilsu- & sálfræðiþjónustuna, miðstöð heilsueflingar til að halda fyrirlestra fyrir 60 ára og eldri í Fjallabyggð.
Dagskrá fyrirlestra er að finna hér fyrir neðan og eru allir 60+ hjartanlega velkomnir.
Dagskrá:
15. september kl. 17:00 – Inga Dagný Eydal, hjúkrunarfræðingur
Heilsuefling – streita efri ára og núvitund. Umfjöllunarefnið er streita og bjargráð við neikvæðri streitu, s.s. núvitund.
22. september kl. 17:00 – Katrín Ösp Jónsdóttir, verkefnastjóri og hjúkrunarfræðingur og Hildur Inga Magnadóttir, verkefnastjóri og ráðgjafi
Áföll og leiðin áfram – rætt verður um afleiðingar áfalla og bjargráð. Unnið verður með styrkleika og leiðir sem stuðla að jákvæðum breytingum.
29. september kl. 17:00 – Inga Dagný Eydal, hjúkrunarfræðingur og Jenný Gunnarsdóttir, kynjafræðingur
Heilbrigði og hamingja – fjallað verður um hreyfingu, mataræði, svefn og svefnvenjur, samskipti, hlutverk og tilfinningar.
6. október kl. 17:00 – Dr. Gísli Kort, sérfræðingur í geðhjúkrun
Geðheilbrigði og geðrækt – Gísli mun ræða um samþætta nálgun til þess að rækta geðheilbrigði út frá heildrænu sjónarhorni, út frá rannsóknum sínum og annarra, með sérstaka áherslu á geðheilbrigði eldra fólks.
Fagaðilar:
Dr. Gísli Kort er sérfræðingur í geðhjúkrun og hefur starfað í geðheilbrigðisþjónustu frá árinu 2004. Hann hefur reynslu, þekkingu og þjálfun í ólíkum samtalsmeðferðarnálgunum. Gísli sérhæfir sig í geðheilbrigði og geðrænum vanda karla, streitu, kulnun og álagi, núvitund o.fl.
Jenný Gunnarsdóttir er kynjafræðingur, hefur lokið grunni í sálfræði, MA prófi í stjórnun og viðbótardiplómu í menntunarfræðum. Hún hefur áralanga reynslu af því að starfa með fólki. Hún sinnir fræðslu sem snýr að geðrækt, sjálfstyrkingu, svefni og svefnvenjum, jafnrétti og fjölbreytileika o.fl.
Hildur Inga Magnadóttir er verkefnastjóri og ráðgjafi sem hefur lokið grunni í sálfræði, MSc í heilbrigðisvísindum með áherslu á geðheilbrigðisfræði og viðbótardiplómu í foreldrafræðslu- og uppeldisráðgjöf. Hún er jafnframt einkaþjálfari og markþjálfi. Hildur veitir ráðgjöf og fræðslu m.a. varðandi heilsu, lífsstíl, skjánotkun, markmiðasetningu og framtíðarsýn.
Inga Dagný Eydal hefur starfað sem hjúkrunarfræðingur síðan 1996 og hefur víðtæka starfsreynslu af sviði hjúkrunar. Hún er jafnframt með viðbótardiplómu í menntunarfræðum og hefur til að mynda sinnt foreldrafræðslu. Inga sérhæfir sig í fræðslu um streitu og örmögnun, heilsuráðgjöf og bjargráðum við streitu, s.s. núvitund, hvíld og hreyfingu.
Katrín Ösp Jónsdóttir er verkefnastjóri og hjúkrunarfræðingur sem stundar meistaranám í heilbrigðisvísindum með áherslu á geðheilbrigðisfræði. Hún hefur í starfi sínu unnið við öldrunarhjúkrun og gjörgæsluhjúkrun en lengst af við krabbameinshjúkrun. Katrín veitir sálrænan stuðning og ráðgjöf til barna og fullorðinna og sinnir fræðslu m.a. í tengslum við langvarandi veikindi.
Mynd Sveinn Snævar Þorsteinsson