Fyrir heilum 6 árum rakst ég á Sillu Gunnars og Huldu Kobbelt niður við mínikringluna Fjörð í Hafnarfirði. Við tókum auðvitað tal saman eins og “burtfloginna” er siður, og ræddum bæði nútímann hér syðra og fortíðina á heimaslóðum. Silla upplýsi mig um að hún ætti einhvers staðar í fórum sínum mynd af fyrsta hljómsveitarbílnum okkar strákanna í Frum, og ég spurði þá hvort ekki væri möguleiki að fá að skanna heimildina. Hún sagði það sjálfsagt mál, ef hún rækist á hana. Það var svo í vikunni að ég fékk bréf í póstkassann af gömlu gerðinni, þ.e. ekki með glugga eins og flest bréf eru orðin nú til dags, heldur frímerki, gamaldags stimpli og utan á það var handskrifað nafn mitt og heimilisfang. Ég varð bæði hissa og spenntur, því svona póstur er orðinn afar fátíður svo ekki sé meira sagt og enn er ekki kominn tími jólakorta. Upp úr umslaginu kom umrædd mynd af gamla rúgbrauðinu sem ég keypti af Ingimar Láka forðum daga. Þetta var bæði mikil og góð sending fyrir utan hvað heimildin var kærkomin. Bestu þakkir Silla.
Sögu bílsins kann ég að einhverju leyti, en hún er líklega frekar óhefðbundin a.m.k. á köflum. Seint á sjöunda áratugnum átti kaupfélagið Wolksvagen rúgbrauð sem Toni notaði til að sendast með vörur til viðskiptavina þess, auk þess sem það var nýtt í ýmis konar snatt eins og gengur. Með árunum fór gripurinn að lýjast og lokum var hann seldur fyrir slikk og fjárfest í Land Rover jeppa sem tók við hlutverki hans. Kaupandinn var stórmúsíkantinn Gerhard Schmidt og menn veltu eitthvað fyrir sér hvað sá góði maður hyggðist gera með þennan útkeyrða bíl. Aðspurður svaraði Gerhard fáu um það, en varð yfirleitt svolítið íbygginn á svipinn og eyddi gjarnan talinu. Sumarið eftir fór hann í frí til Þýskalans og tók bílinn með sér. Að einhverjum vikum liðnum kom hann aftur til landsins ásamt bílnum sem nú virtist heldur betur hafa fengið andlitslyftinu. Ýmsir urðu til þess að dást að vinnu þýsku bílasmiðanna, því allt ryð var horfið og bíllinn virtist vera eins og nýsprautaður, en þó ekki alveg. Einhverjir gáfu það í skyn að eitthvað væri nú undarlegt við þessar endurbætur og veltu upp þeim möguleika að þetta væri bara alls ekki sami bíllinn. Ég skal ekkert fullyrða neitt um það, en það kvisaðist út að einhverjir eftirmálar hefðu orðið vegna meints “bílainnflutnings” að hálfu tollyfirvalda. Einhverju sinni þegar ég mætti í píanótíma til meistarans, áræddi ég að spyrja hann út í bílamálin, en fór þó mjög varlega í það. Gerhard hló svolítið vandræðalega og sagði þetta ekki hafa verið eins góðan bisness og til hefði staðið, en spurði síðan í beinu framhaldi; “hvað ætluðum við svo að spila í dag”.
Gerhard átti bílinn ekki mjög lengi og seldi hann Ingimar bakara. Ingimar átti hann í tvö eða þrjú ár, en auglýsti hann til sölu þegar hann hætti að baka á Hvanneyrarbrautinni. Það var þá sem ég keypti hann, því við ungpoppararnir vorum farnir að spila svolítið á alvöruböllum og vantaði því hljómsveitarbíl. Það mun hafa verið um vorið eða snemmsumars árið 1972, en þá var ég ennþá aðeins sextán ára. Við Guðni Sveins gítarleikarinn í bandinu vorum á þessum tíma nágrannar og gríðarlega miklir mátar, sem við erum reyndar enn þó minna fari fyrir því. Hann sem er fæddur í janúar var þá kominn með bílpróf, en ég mátti bíða til næsta árs þar sem ég er ekki fæddur fyrr en í nóvember, og á þessum tíma var ekki boðið upp á að taka bílpróf á Siglufirði nema yfir hásumarið. Það var því ákveðið að ég keypti bílinn, en Guðni yrði ökumaðurinn þar til ég gæti tekið við því embætti. Ég tók því út fermingapeningana mína, fékk svolitla viðbótaraðstoð frá afa ög ömmu og keypti bílinn. Kaupverðið var kr. 150.000 eða hundraðogfimmtíuþúsundkall. Sumarið og haustið var vægast sagt skemmtilegur tími, það var víða farið og margt brallað.
Um veturinn kláraðist hins vegar vélin sem var öllu verra mál. Það virtist því um fátt annað að ræða en fjárfesta í svokölluðum skiptimótor frá Heklu sem var stórmál fyrir síblanka stráka sem “slepptu aldrei helgi” á þessum tíma. En í þessum vandræðum mínum barst mér hjálp úr óvæntri átt. Reynir Gunnarsson sem þá var nýfluttur í bæinn og vann með mér í frystihúsinu við Vetrarbrautina, bauðst til að aðstoða mig við að gera við vélina. Ég þáði það auðvitað, við tókum vélina úr bílnum og bárum hana inn í Sjálfstæðishúsið sem hljómsveitin var þá með á leigu. Hún var sett upp á gamalt aflóga eldhúsborð og skrúfuð þar í sundur. Ég fékk í kjölfarið lista yfir þá varahluti sem Reynir taldi vanta til koma henni aftur í gang, sem ég keypti og fannst ég sleppa vel miðað við verðið á skiptimótornum. Eftir tvær eða þrjár vikur var búið að skrúfa all saman aftur og viti menn, vélin fór í gang og meira að segja svínvirkaði. Ég tók gleði mína á ný og ég tók líka hið langþráða bílpróf um svipað leyti. Það var auðvitað rúntað sem aldrei fyrr og nánast hver einasta króna fór nú í bensín í staðinn fyrir bús. Einhverja nóttina var farið í kappakstur úti á Strönd við þá félaga Ásbjörn Blöndal og Magga Viðars sem voru á Cortinu sem mér fannst sprækari en góðu hófi gegndi. Leikurinn barst niður í bæ og endaði með því að bílarnir skullu saman niður við Ráðhústorg. Eftir það var illmögulegt að opna hurðina bílstjóramegin, en það varð bara að hafa það. Gamla rúgbrauðið var þegar þarna var komið sögu, orðið ákaflega þreytulegt að sjá. Til að flikka aðeins upp á útlitið fékk ég þá “bráðsnjöllu” hugmynd að mála það gult og svart. Ég keypti einn lítir af svörtu vinnuvélalakki og annan af gulu ásamt rándýrum lakkpensli, og byrjaði að mála. Ég lauk strax við svörtu röndina fyrir neðan gluggana ásamt öllu öðru því sem átti að verða svart, en gula málningin kláraðist fljótt. Á myndinni hér að ofan er sú hlið sem snýr að ljósmyndaranum ennþá ljósblá, en hinum megin var hún orðin vinnuvélagul. Ég hafði hugsað mér að halda málningarvinnunni áfram þegar ég ætti pening fyrir meira lakki, en raunin varð sú að það var aldrei málað meira. Um haustið 1973 fór vélin öðru sinni, og voru þar með endalok fyrsta bílsins sem ég eignaðist ráðin.
Texti og myndir: Leó Ólason