Upplýsingamiðstöð ferðamanna í Húnaþingi vestra, sem rekin er á Selasetri Íslands, tók á móti 1679 gestum fyrstu þrjá mánuði ársins 2018. Sama ársfjórðung árið 2017 tókum við á móti 1958 gestum. Þetta er 14% fækkun á milli ára.
Einnig keyptu 10% færri sig inn á safnið á milli ára á fyrsta ársfjórðungi.
Gestum fækkaði á milli ára alla 3 mánuði ársfjórðungsins, eða um 17% í janúar, um 16% í febrúar, og um 13% í mars. Fækkun gesta má að hluta til skýra með veðurfari og færð á vegum í janúar og febrúar, en því var ekki til að dreifa í mars.
Langsamlega fæstir heimsækja Selasetrið á fyrsta og fjórða ársfjórðungi, svo þessi fækkun hefur lítið að segja um þróun heildarfjölda gesta á ársgrundvelli – en þessar tölur kunna að vera vísbending um ákveðna kólnun í ferðaþjónustunni, sérstaklega á svokölluðum jaðarsvæðum.
Gestatölur 2017
Nú þegar árið er liðið er ekki úr vegi að líta um öxl. Árið 2017 komu til okkar 42.481 gestir í heild í upplýsingamiðstöð Húnaþings vestra á Selasetri Íslands. Þetta er 8% aukning á gestafjölda frá árinu 2016, en það verður að segjast eins og er að þessi aukning er mjög lítil miðað við árin á undan, en á milli 2015 og 2016 fjölgaði um 44%, og á milli 2014 og 2015 um 35%. Það er því ljóst að mjög dróst úr aukningu ferðamanna á síðasta ári, sem eitt og sér skiptir ekki öllu, en alvarlegur fylgifiskur er sá 29% veltusamdráttur á milli ára sem bráðabirgðatölur okkar sýna að hafi átt sér stað.
Inn á safnið borguðu sig 13.417 gestir árið 2017, sem er 12% aukning miðað við árið 2016, og mikið gleðiefni að fjölgunin inn á safnið hafi verið meiri en gestafjölgun almennt – þó verður að taka fram að veltusamdrátturinn sem fyrr er getið er svona mikill þrátt fyrir þessa aukningu á sölu inn á safnið, og má af því ráða að árið 2017 hafi ferðamenn haldið mikið í við sig í minjagripaverslun og afþreyingu.
Frétt fengin af vef: Selaseturs Íslands
Mynd: Kristín Sigurjónsdóttir