Erindi Sverris Páls Erlendssonar um kaup Fjallabyggðar á listaverkum Ragnars Páls var tekið fyrir á 803. fundi bæjarráðs Fjallabyggðar.

Erindi Sverris Páls var eftirfarandi.

“Það eru engar fréttir að Ragnar Páll hefur verið einhver helsti myndlistarmaður Siglufjarðar og Siglfirðinga um langt árabil og bjó á Siglufirði mikinn hluta ævi sinnar. Hann hefur fest á striga, beitt vatnslitum og teiknað með blýanti og penna eftirminnileg verk sem eru að sönnu skrásetning á atvinnulífi Siglfirðinga, ekki síst sildarsöltuninni og auk þess teiknað fjölda gamalla og gegnra Siglfirðinga. 

Ragnar varð 85 ára í apríl síðastliðnum og settist á tunnu og spilaði á harmonikku þegar Síldarstúlkur sonar hans voru vígðar um daginn.

Nú hef ég oft skoðað Listasafn Fjallabyggðar á vef (enda ekki sýnilegt annars staðar) og rekið augun í það að þessi siglfirski listmálari á ekki eitt einasta málverk í gamla Listasafni Siglufjarðar – og eina málverkið eftir hann í Listasafni Fjallabyggðar er mynd sem hangir á vegg í Tjarnarborg í Ólafsfirði og er af síldarsöltun Í ÓLAFSFIRÐI. Verk Ragnars eru hins vegar til á fjölmörgum heimilum á Siglufirði og hjá brottfluttum Siglfirðingum.

Ég hef lengi furðað mig á þessu og reyndar hneykslast því mér finnst bæði furðulegt og fáránlegt að Listaafnið eigi ekki a.m.k. nokkur verk eftir hann. Það á til dæmis nokkur verk eftir annan merkan myndlistarmann, Sigurjón Jóhannsson. Og það er vel.

Mér finnst að bæjarfélagið ætti að festa kaup á málverki eða málverkum Ragnars Páls og sýna honum virðingarvott fyrir myndlistarstarf sitt í hátt í eina öld, hann hefur iðulega haft sýningar á Siglufirði og mörg verka hans eru lifandi dæmi um lífið á síldarárunum. Og þessa virðingu mætti sýna honum á meðan hann er lífs og jafnsprækur og hann var þegar Síldarstúlkurnar voru vígðar. Hann er auk þess sérstaklega minnugur og fróður um sögu bæjarins, fólkið og fyrirtækin. Og það var hann sem tók upp á því með félögum sínum í Gagganum að setja upp fyrsta ártalið í hlíðinni undir Gimbraklettunum.

Þetta hefur legið á mér (og fleirum) en núna varpa ég boltanum yfir til þín.

Bestu kveðjur
Sverrir Páll”

Erindi Sverris Páls var synjað og eftirfarandi bókun gerð.

Sveitarfélagið hefur ekki haft virka stefnu um kaup á listaverkum. Þau listaverk sem eru í eigu þess í dag hafa að langstærstu leyti verið færð sveitarfélaginu að gjöf. Bæjarráð getur að svo komnu máli ekki orðið við beiðninni á meðan ekki liggur fyrir innkaupastefna listaverka. Markaðs- og menningarfulltrúa falið að gera tillögu að innkaupastefnu og leggja fyrir bæjarráð.