Siglfirðingurinn Rakel Fleckenstein Björnsdóttir dvaldi á Siglufirði um helgina og hélt námskeið í hormónajóga. Tíu konur tóku þátt í námskeiðinu sem stóð yfir í tvo daga og voru þær afar ánægðar með það. Þar stunduðu þær hormónajóga og slökun sem hentar sérlega vel fyrir fyrir konur á breytingaskeiðinu, einnig geta konur æft sig fyrir þetta óumflýjanlega tímaskeið í lífi allra kvenna með því að stunda jóga.
Rakel er fyrsti íslenski jógakennarinn til að nema þetta ákveðna jóga sem beinist sérstaklega að innkirtlastarfsemi líkamans.
Hún heldur einnig úti facebooksíðu þar sem hægt er að finna fróðleik úr smiðju Brasilíska jógakennarans Dinah Rodrigues en Rodrigues, sem er höfundur hormónajóga, hún hefur þróað ákveðna aðferðafræði sem hefur reynst konum með ójafnvægi á hormónastarfseminni afar vel, sér í lagi konum á breytingaskeiði.
Hvað er hormónajóga?
Hormónajóga er náttúruleg aðferð sem notuð er til að koma jafnvægi á hormónakerfið í líkamanum með því að örva kirtlana sem framleiða hormónin og seyta þeim síðan frá sér.
Aðferðafræðin er þróuð af brasilíska sálfræðingnum og jógakennaranum Dinah Rodrigues en aðferðir hennar byggja á áratuga reynslu af jógaiðkun og kennslu og rannsóknum tengdum lífeðlisfræði.
Dinah Rodrigues hefur þróað þrennslags hormónajóga: hormónajóga fyrir konur við tíðahvörf og fyrir konur með ójafnvægi á hormónastarfseminni, streitulosandi hormónajóga fyrir karla og hormónajóga fyrir sykursjúka.
Frétt og myndir: Kristín Sigurjónsdóttir