Hljómsveitin KVIKA gaf út sína þriðju breiðskífu þann 10. júní 2021. Hún ber nafnið “The River”. 

Nafn plötunnar er upprunnið úr þremur ólíkum áttum en kristallaðist við lokavinnsluna. Nafn hennar vísar til tveggja laga á plötunni, til ferðalags lagasmiðanna tveggja, Guðna Þórs og Tuma til Krakow þar sem áin Vistula veitti innblástur og til lokaupptakanna í sumarbústað við Blöndu. Það má segja að þetta hafi runnið saman í einn árfarveg úr þremur lækjarsprænum. Hugtakið tíminn sem rennandi fljót – óstöðvandi straumur tímans – hefur átt hug textasmiðsins Guðna Þórs lengi. Það vill svo til að þessi hugmynd rann inn í tvö lög á plötunni:
“The River” og “The Arrow of Time.”

Sumarið 2019 lögðu Tumi og Guðni land undir fót til Katowice og Krakow í Póllandi. Þar urðu til nokkur lög auk þess sem aðrar fyrri lagahugmyndir fengu að gerjast betur. Áin Vistula er ákveðið einkenni Krakow og miðpunktur. Við þessa lengstu á Póllands er mikið mannlíf. Lagið “The River” er einmitt samið með Vistula í huga eftir nokkrar góðar stundir við ánna. Innblástur lagsins Valentine var einnig fenginn í borginni Krakow að næturlagi á göngu í görðunum umlykis stærsta torgs Evrópu, Rynek Glowny. Lagið fjallar um rómantík, spennu og dagdrauma ókunnugs fólks á gangi um garðana. 

Til gamans má geta að eitt laganna sjö á plötunni ber nafnið Streets of Warsaw, en eins og nafnið gefur til kynna, var það samið árið áður í borginni Varsjá. Það má því með sanni segja að Kvikumenn hafi sótt töluverðan innblástur til Póllands. Ekki má svo gleyma borginni Katowice, hinni listrænu tónlistarborg, en þar urðu einnig til laga- og textabútar. 

Lokaupptökurnar áttu sér stað í bústað við Blöndu, þar sem innblástur var fenginn frá fallegum nið árinnar. Undir þeim kringumstæðum varð ljóst hvert nafn plötunnar skyldi vera.

The River má finna í heild sinni á öllum helstu streymisveitum. En hér má hana finna hana á Spotify:

Hér má finna allar helstu upplýsingar um KVIKU á Facebook síðu þeirra félaga: https://www.facebook.com/kvikamusic

Lagalisti “The River” er eftirfarandi:
1. The Arrow of Time
2. The River
3. What a Man!
4. Streets of Warsaw
5. Those were the Times
6. Fever
7. Valentine

Aðsent