Trölli.is sagði frá því fyrr í sumar að framkvæmdir stæðu yfir á skólalóð Grunnskólans í Fjallabyggð Ólafsfirði og framkvæmdum ætti að vera lokið fyrir skólasetningu. Sjá frétt: Verkinu miðar vel. Einnig fóru fram endurbætur á skólalóðinni á Siglufirði og hafa endurbætur við skólana staðir yfir frá árinu 2017.
Á vef Fjallabyggðar segir að framkvæmdum sé lokið og eru þær hinar glæsilegustu.
Verkin voru unnin í þremur áföngum og hófust framkvæmdir við 1. áfanga skólalóðarinnar við Norðurgötu á Siglufirði sumarið 2017. Annar áfangi var unnin 2018 og sá þriðji nú í sumar. Vinna hófst við 1. áfanga á skólalóðinni í Ólafsfirði sumarið 2018 og voru áfangar tvö og þrjú kláraðir í sumar.
Á skólalóðunum hefur meðal annars verið komið fyrir hjólabogum, leiktækjum s.s. trampólíni, vegasalti, rólum, klifur- og jafnvægistækjum og aparólum. Einnig eru nýir glæsilegir körfuboltavellir á lóðunum auk hreystibrautar sem sett var á skólalóðina í Ólafsfriði.
Fallvarnarbúnaður var settur undir aparólur og Tartan efni á körfuboltavellina sem dregur úr hljóðmengun og slysahættu. Umhverfis leiktæki var lagt gervigras sem gerir umhverfið snyrtilegra.
Heildarkostnaður við endurgerð lóðanna er áætlaður ríflega 200 milljónir króna.
Skólalóðirnar eru öllum aðgengilegar utan hefðbundins skólatíma og eru íbúar hvattir til að skoða nýju skólalóðarinnar laugardaginn 31. ágúst nk.
Myndir: Fjallabyggð