Hafrannsóknastofnun mun fá 120 milljón króna aukaframlag samkvæmt breytingartillögum fyrir 3. umræðu fjárlaga næsta árs til rannsókna og leitar að loðnu. Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fundaði í gær með fulltrúum stofnunarinnar og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi um fyrirkomulag loðnuleitar á næstu vikum og mánuðum. Samstaða er um að leitin verði eins umfangsmikil og þörf er á enda miklir hagsmunir í húfi.

Engar loðnuveiðar hafa verið stundaðar við Ísland síðustu tvær vertíðir með tilheyrandi tjóni. Eftir mælingar á ungloðnu haustið 2019 ríkti jákvæðni um að loðnuveiðar yrðu stundaðar á komandi vetri. Ráðlagður upphafskvóti var 170 þúsund tonn. Í kjölfar mælinga tveggja rannsóknaskipa í september 2020 var ráðgjöfin endurskoðuð en þá lagði Hafrannsóknastofnun til að engar veiðar yrðu stundaðar nema mælingar á stærð stofnsins í janúar og febrúar 2021 gæfu tilefni til. Byggði sú ráðgjöf á gildandi aflareglu Íslands, Grænlands og Noregs. Í fyrradag tilkynnti Hafrannsóknastofnun um ráðgjöf um aflamark upp á 21.800 tonn.

Ráðgert er að næsti loðnuleiðangur verði farinn í byrjun janúar.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:

„Það skiptir miklu fyrir viðspyrnu efnahagslífsins að loðna veiðist í vetur en áætlað hefur verið að útflutningsverðmæti um 170 þúsund tonna af loðnu nemi um 25 milljörðum króna. Með auknu fjármagni til loðnuleitar á komandi vikum og mánuðum er verið að skapa meiri vissu um leitina og tryggja um leið að leitin verði eins umfangsmikil og þörf er á.“

Mynd/Sigmund av Teigum