Sumardagurinn fyrsti er á fimmtudegi á bilinu 19. til 25. apríl. Um fyrsta sumardag er getið þegar í elstu heimildum. Vikan var helsta tímaeining í gamla íslenska tímatalinu og kann það að valda nokkru um að nafn fyrsta sumarmánaðar, hörpu, er ekki þekkt fyrr en frá 17. öld.
Nafnið virðist dregið af vorhörkum, en síðar tengist það öðrum persónugerðum mánaðaheitum og er þá litið á Hörpu.
Sumargjafir eru þekktar frá 16. öld og eru miklu eldri en jólagjafir. Ekki var unnið nema nauðsynjastörf eða táknræn sumarstörf og hafa börn nýtt daginn til leikja. Víða var messað á sumardaginn fyrsta til miðrar 18. aldar, en húslestrar héldust mun lengur.
Samkomur hefjast í sveitum og bæjum seint á 19. öld. Eftir aldamótin 1900 tengjast þær ungmennafélögunum, en frá þriðja áratug síðustu aldar hefur dagurinn verið helgaður börnum með skrúðgöngum, skemmtunum og útgáfustarfi. Fyrsti “barnadagurinn” var í Reykjavík árið 1921.
Ýmis þjóðtrú tengist sumarkomu og er meðal annars talið vita á gott ef sumar og vetur “frýs saman” aðfaranótt sumardagsins fyrsta.
Heimild: Þjóðminjasafn Íslands