Tilraunaverkefni um heimaslátrun sauðfjár er farið af stað og alls taka 35 býli, víðsvegar um landið, þátt í verkefninu.

Markmið þess er leita leiða til þess að auðvelda bændum að slátra sauðfé heima til markaðssetningar þannig að uppfyllt séu skilyrði regluverks um matvælaöryggi og gætt sé að dýravelferð og dýraheilbrigði. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur falið Hólmfríði Sveinsdóttur, doktor í lífvísindum og næringarfræðingi, að stýra verkefninu fyrir hönd ráðuneytisins.

Heilbrigðisskoðun framkvæmd af dýralæknum

Síðustu misserin hefur verið unnið ötullega að undirbúningi í samráði við Matvælastofnun, landssamtök sauðfjárbænda og þátttakendur. Í sumar undirrituðu Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Guðfinna Harpa Árnadóttir, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, samkomulag um tilraunaverkefni um heimaslátrun.

Undirbúningi verkefnisins er nú lokið, þátttakendur verkefnisins eru 35 talsins og eru búsettir víðsvegar um landið. Fyrirkomulag verkefnisins er með þeim hætti að þátttakendur munu sjálfir framkvæma heimaslátrun á bæjum en heilbrigðisskoðun verður framkvæmd af dýralæknum Matvælastofnunar með tvenns konar hætti, annars vegar með heimsókn dýralæknis á 19 bæi og hins vegar í gegnum fjarfundarbúnað í beinu streymi á 16 bæjum.

Þátttakendur munu jafnframt mæla sýrustig og taka sýni fyrir örverumælingar í því skyni að mæla gæði kjötsins. Afurðir úr verkefninu verða ekki seldar á markaði. Samkvæmt samningnum fjármagnar ráðuneytið sýnatökur og rannsóknir á örverumælingum.

Heimild og mynd: stjornarradid.is