GÓÐ VÍSA

Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir, sellóleikari, skáld og lagasmiður á Akureyri, býður til tónleika í Ólafsfjarðarkirkju sunnudaginn 8. september.

Um ræðir röð stuttra tónleika, þar sem tónleikagestir geta valið úr það sem þeir vilja hlýða á, eða hlustað á allt saman. Það eru þrennir hálftímalangir tónleikar með frímínútum til skrafs inn á milli. Aðgangur er ókeypis og tekið við frjálsum framlögum.

Á tónleikunum leikur Steinunn ýmist sellósvítur eftir J.S. Bach eða lög og ljóð eftir sjálfa sig. Svíturnar eru leiknar á tvö ólík selló, í ólíkri og óvenjulegri stillingu, en annað þeirra er fimmstrengja. Það getur verið forvitnilegt að sjá og heyra hinn ólíka hljóm hljóðfæranna, og er tónninn í svítunum eftir því dimmur eða heiðríkur. Þar á milli hljóma lög Steinunnar, en hún gaf nýverið út aðra ljóðabók sína, FUGL/BLUPL, og geisladisk með lögum sínum, Ljúfa huggun. Hér leikur hún sjálf undir á selló.

Steinunn er bæði útfærð í barokklistinni, enda hefur hún numið og starfað við barokktónlist um árabil í Frakklandi, og gjörn á að koma fram sem skáld og trúbador með selló við hönd. Hún hefur komið fram oft og víða í Frakklandi og á Íslandi, ýmist með sellóeinleik eða ljóðagjörninga og -söng, m.a. á Ljóðasetri Íslands. Hún er einnig stofnandi fransk-íslenska barokk- og indípopphópsins Corpo di Strumenti/SÜSSER TROST,  og stofnmeðlimur í þjóðlagabandinu Gadus Morhua, sem gjarnan koma fram á Þjóðlagahátíðinni á Siglufirði.

Steinunn er nýflutt til Akureyrar eftir langa útlegð, og hlakkar til að hella sér inn í tónlistar- og skáldskaparlíf Eyjafjarðar og nærsveita.

Tímasetningar tónleikanna í Ólafsfjarðarkirkju 8. september eru eftirfarandi:
16:00 – Svíta nr. 5 í c-moll fyrir einleiksselló eftir J.S. Bach
16:40 – Lög og ljóð Steinu
17:10 – Svíta nr. 6 í D-dúr fyrir fimmstrengjaselló eftir J.S. Bach

 

Sem fyrr segir er aðgangur ókeypis og tekið við frjálsum framlögum.

 

og Corpo di Strumenti / Süsser TROST á FB.