Það gránaði í fjöll í gær og nótt á Tröllaskaga og minnti á að haustið nálgast óðfluga. Sveinn Snævar tók meðfylgjandi myndir á Siglufirði í morgun.

Það ætti að viðra vel næstu daga fyrir þá sem vilja ganga til berja, eins og veðurspáin frá Veðurstofu Íslands ber með sér.

Áframhaldandi er spáð norðlægri átt í dag, yfirleitt 3-10. Skýjað og dálítil rigning eða súld austan til, en léttskýjað vestan til. Birtir smám saman til suðaustanlands. Hiti 12 til 22 stig að deginum og hlýjast sunnanlands, en mun svalara norðaustanlands.
Hægari á morgun og bjart veður, en skýjað um landið austanvert og súld með köflum. Heldur svalara.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag:
Hæg breytileg átt. Viða léttskýjað, en skýjað austast. Þokabakkar við norður- og austurströndina. Hiti 10 til 19 stig, hlýjast inn til landsins.

Á föstudag:
Suðvestlæg átt, 3-10. Þykknar upp á vestanverðu landinu og fer að rigna seinnipartinn. Lengst af bjart fyrir austan. Hiti 10 til 20 stig, hlýjast norðaustanlands.

Á laugardag:
Suðvestlæg átt með rigningu eða súld, en úrkomuminna norðaustan- og austanlands. Hiti breytist lítið.

Á sunnudag:
Vestlæg átt. Rigning fyrir norðan fyrripartinn, annars úrkomulítið. Hiti 8 til 18 stig, hlýjast suðaustanlands.

Á mánudag:
Vestlæg eða breytileg átt og skúrir á víða og dreif. Kólnandi.

Myndir/Sveinn Snævar Þorsteinsson