Drög að reglugerð um íbúakosningar sveitarfélaga á grundvelli 133. gr. sveitarstjórnarlaga hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Hægt er að senda inn umsagnir eða ábendingar til og með 1. september nk.

Ný reglugerð fjallar um allar tegundir íbúakosninga sveitarfélaga en markmiðið er að einfalda og minnka umfang íbúakosninga sveitarfélaga og veita sveitarfélögum meira vald hvað kosningarrétt varðar í ráðgefandi íbúakosningum. Reglugerðinni er jafnframt ætlað að auka lýðræðisþáttöku og sjálfbærni sveitarfélaga og efla þannig sveitarstjórnarstigið. 

Alþingi samþykkti í júní 2022 lög sem fólu í sér breytingar á ákvæðum sveitarstjórnarlaga sem fjalla um íbúakosningar sveitarfélaga. Lögin fela m.a. í sér að íbúakosningar sveitarfélaga færu ekki lengur fram á grundvelli meginreglna kosningalaga heldur á grundvelli reglna sem sveitarfélög skyldu setja sér sjálf um framkvæmd slíkra kosninga. Ráðherra sveitarstjórnarmála ber samkvæmt lögunum að setja reglugerð um þau lágmarksatriði sem geta þyrfti um í reglum sveitarfélaga um íbúakosningar til að tryggja örugga framkvæmd þeirra. Breytingarnar höfðu þau markmið að skýra og einfalda framkvæmd íbúakosninga og að minnka umfang þeirra og kostnað án þess að vega að öryggi og vandaðri framkvæmd slíkra kosninga.

Innviðaráðherra staðfesti reglugerð um íbúakosningar nr. 323/2023 þann 14. mars sl. á grundvelli laganna. Vinna við gerð reglugerðarinnar leiddi þó í ljós að til staðar væru ákvæði í sveitarstjórnarlögum sem gerðu það að verkum að framkvæmd íbúakosninga væri enn óþarflega þung í vöfum og takmarkaði möguleika sveitarfélaga á að nýta sér það úrræði að halda íbúakosningar til að leita eftir vilja íbúa í einstöku málum. Af þeirri ástæðu hafði innviðaráðaráðherra frumkvæði að því að í frumvarpi dómsmálaráðherra um breytingar á kosningalögum, sem lagt var fram á Alþingi á vordögum, voru lagðar til frekari breytingar á þeim ákvæðum sveitarstjórnarlaga sem fjalla um íbúakosningar.

Frumvarp þess efnis var samþykkt á Alþingi í júní sl. þar sem gerðar voru ýmsar breytingar sem höfðu það markmið að einfalda og minnka umfang íbúakosninga ásamt því að sveitarfélögum var veitt meira vald hvað kosningarrétt varðar í ráðgefandi íbúakosningum og var litið til þess að breytingin væri til þess fallin að auka sjálfbærni sveitarfélaga, auka lýðræðisþátttöku og efla þannig sveitarstjórnarstigið.