Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur undirritað reglugerð um stöðvun veiða á grásleppu á þessu fiskveiðiári. Ástæðan er að fyrirséð er að veiðarnar muni fljótlega nálgast ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um að heildarafli á þessu fiskveiðiári verði ekki meiri en 4.646 tonn.
Í reglugerðinni kemur fram að grásleppuveiðar verði bannaðar frá og með miðnætti aðfaranótt sunnudagsins 3. maí 2020. Hins vegar verði heimilt að gefa út leyfi til grásleppuveiða í allt að 15 daga til þeirra sem stunduðu grásleppuveiðar árin 2018 eða 2019 á Breiðafirði, svæði 2, samkvæmt leyfum sem tóku gildi 20. maí þau ár eða síðar. Er þetta gert til að koma til móts við grásleppusjómenn sem stunda munu veiðar á þessu svæði en þær veiðar verða ekki heimilar fyrr en 20. maí nk.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:
„Hafrannsóknastofnun gaf út 4.646 tonna ráðgjöf fyrir veiðar á grásleppu á þessu fiskveiðiári. Með þessari reglugerð er verið að tryggja að veiðarnar verði sem best í samræmi við vísindalega ráðgjöf og það er mikilvægt fyrir alla hlutaðeigandi. Ekki síst til að tryggja að þær vottanir sem fyrir liggja tapist ekki.“
Heimild: stjornarradid.is