Gratínerað sveppabrauð ( 4 stórar sneiðar )

Sósan

  • 2 msk (30 g) smjör
  • 2 tsk (15 g) hveiti
  • 3/4 bolli (175 ml) mjólk
  • smá múskat
  • salt og pipar
  • 1 msk (15 g) Dijon sinnep

Hitið stóra pönnu við miðlungsháan hita. Bræðið smjör á pönnunni og hrærið hveiti saman við þar til blandan er kekkjalaus. Hrærið mjólkinni smátt og smátt saman við. Kryddið með múskat, salti og pipar og látið sjóða við vægan hita í nokkrar mínútur. Blandan á að vera þykk. Setjið blönduna í skál og hrærið Dijon sinnepinu saman við.

Sveppirnir

  • 680 g ferskir sveppir (ég var með blöndu af venjulegum og kastaníusveppum)
  • ólífuolía og smjör
  • 2 tsk hakkaðar ferskar kryddjurtir, t.d. rósmarín, timjan eða salvía, ítalska hvítlauksblandan frá Pottagöldrum er góð með.
  • salt og pipar

Skerið sveppina í þunnar sneiðar. Notið pönnuna sem sósan var gerð í (þurrkið hana fyrst aðeins með eldhúspappír) og hitið ólífuolíu og smjör á henni. Þegar pannan er orðin vel heit er helmingurinn af sveppunum settur á hana ásamt kryddurtum og látið sveppina brúnast á annarri hliðinni í 2-3 mínútur. Hrærið þá í sveppunum og steikið áfram þar til þeir eru orðnir mjúkir og allur vökvi er horfinn af pönnunni. Kryddið vel með salti og pipar. Gerið eins við seinni helminginn af sveppunum.

Samsetning

  • Gott brauð, t.d. súrdeigsbrauð, skorið í um 2 cm þykkar sneiðar
  • 225 g grófrifinn ostur, t.d. gouda
  • steinselja til skrauts

Hitið ofninn í 200° og leggið brauðsneiðarnar á smjörpappírsklædda ofnplötu. Smyrjið vel af sósunni yfir brauðið (passið að smyrja þær alveg út í endana). Setjið vel af sveppum yfir og endið á að setja vel af rifnum osti yfir.

Bakið í 5 – 10 mínútur eða þar til osturinn hefur bráðnað og byrjað að brúnast aðeins. Stráið steinselju yfir og berið strax fram.

Uppskrift: Ljúfmeti og lekkerheit