Verslunarstjóri Hríseyjarbúðarinnar grét af gleði er hún frétti af því að verslunin fengi tveggja milljón króna styrk á ári frá ríkinu til ársins 2021 til þess að renna styrkari stoðum undir reksturinn.

Vísir.is greindi frá.

Hríseyjarbúðin er ein af sex verslunum á landsbyggðinni sem hljóta munu styrki frá samgöngu og sveitarstjórnarráðuneytinu sem ætlað er að styðja verslun í skilgreindu strjábýli, fjarri stórum þjónustukjörnum þar sem verslun hefur átt erfitt uppdráttar.

Verslunin fær alls 6,3 milljónir í styrk, 300 þúsund krónur vegna ársins í ár og tvær milljónir næstu þrjú árin.

Claudia Werdecker, verslunarstjóri Hríseyjarbúðarinnar, er afar ánægð með styrkveitinguna og grét að eigin sögn af gleði þegar hún fékk fréttirnar.

„Þetta er gríðarlega erfiður rekstur og þessi búð hefur ekki staðið undir sér því miður. Við höfum reynt það og erum að reyna að reka þessa búð á núlli en það hefur bara ekki gengið upp. Það er alveg mjög gott að fá líka pening til lengri tíma þá er maður ekki alltaf að hugsa um vorið er þetta að fara í gjaldþrot núna eða ekki?“

Lang mest er að gera í versluninni á sumrin og byggir reksturinn á því að nóg komi í kassann yfir sumartímann svo hægt sé að sinna íbúum eyjunnar yfir veturinn en það gengur hins vegar ekki alltaf eftir.

„Það þarf eiginlega nefnilega ekki hærri upphæð en þetta til að halda þessari búð gangandi þegar það er enginn utanaðkomandi peningur er þetta varla hægt.“

Engin verslun var í eyjunni um skeið eftir að júllabúð lagði upp laupana árið 2015 vegna erfiðra rekstrarskilyrða. Félag um nýja verslun var stofnað skömmu síðar og um fimmtíu hluthafar eiga hlut í versluninni, mestmegnis eyjaskeggjar. Þeim finnst að sögn Claudiu afar mikilvægt að geta verslað í heimabyggð.

„Þetta félag var náttúrulega stofnað til að komast til móts við þessa þörf hérna. Það vantaði búð þess vegna er náttúrulega eðlilega líka opið yfir veturinn.“

 

Frétt og mynd: visir.is