Fótbolti.net tilkynnti það í morgun að Siglfirðingurinn Grétar Rafn Steinsson er hættur sem yfirmaður fótboltamála hjá Fleetwood Town en hann er að taka við sem yfirnjósnari Everton í Evrópu.

Vefsíðan Training Ground Guru greinir frá þessu í dag.

Þar kemur fram að síðasti vinnudagur Grétars hjá Fleetwood hafi verið í gær og að Everton muni tilkynna formlega um ráðningu hans á morgun.

Grétar Rafn hefur verið yfirmaður knattspyrnumála hjá Fleetwood í tæp fjögur ár eða síðan í janúar 2015. Hann hefur meðal annars unnið mikið í leikmannamálum félagsins.

Marcel Brands var ráðinn sem yfirmaður íþróttamála hjá Everton í sumar en Grétar þekkir hann frá tíma sínum hjá AZ Alkmaar.

Samkvæmt Training Ground Guru ætlar Fleetwood ekki að ráða nýjan mann í stað Grétars. Joey Barton, stjóri Fleetwood, mun þess í stað vinna meira í leikmannamálunum.

Grétar Rafn spilaði á sínum tíma með Bolton í ensku úrvalsdeildinni en hann lagði skóna á hilluna árið 2013, þá 31 árs að aldri.

 

Mynd: Fótbolti.net