Grískur ofnréttur
- Kartöflubátar
- 500 gr svínalund
- 1 rauð paprika
- 1 rauðlaukur
- 1 askja kokteiltómatar
- 1 fetakubbur
Marinering fyrir kjötið
- 1 ½ dl olía (ekki ólívuolía)
- 2 msk sojasósa
- 3 hvítlauksrif
- 1 tsk engifer (krydd, ekki ferskt)
- 1 ½ tsk sambal oelek (chilimauk sem fæst t.d. í Bónus)
- salt og pipar
Köld sósa
- 2 dl sýrður rjómi (1 box)
- 3 msk majónes
- 1 tsk ítalskt salatkrydd eða jurtakrydd
- 1 pressað hvítlauksrif
Deginum áður:
Blandið hráefnunum í marineringuna saman. Skerið kjötið í ca 1 cm þykkar sneiðar og leggið í marineringuna. Látið standa í lokuðu boxi eða skál í ískáp í sólarhring.
Blandið hráefnunum í sósuna saman og geymið í ískáp.
Sama dag:
Hitið ofnin í 220°. Skerið kartöflur í báta og leggið í stórt eldfast mót eða ofnskúffu. Saltið og kryddið með smá chili explosion kryddi og setjið í ofninn í 20-25 mínútur.
Skerið rauðlaukin og paprikuna í báta og kirsuberjatómatana í fernt. Takið kartöflurnar úr ofninum og leggið niðurskorið grænmetið yfir þær. Leggið kjötið ásamt marineringunni yfir grænmetið og endið á að mylja fetakubbinn yfir kjötið. Setjið í ofninn í 20-25 mínútur.
Berið fram með köldu sósunni og jafvel ólívum og góðu brauði.
Uppskrrift og myndir: Ljúfmeti og lekkerheit