Nú er 9. skólaári Grunnskóla Fjallabyggðar lokið. Óhætt er að segja að breytingar hafi einkennt þennan vetur eins og marga aðra á undan. Síðastliðið haust var ákveðið að fara í samstarf við ráðgjafafyrirtækið Tröppu ehf. um verkefnið Framúrskarandi skóli og er markmiðið að taka upp sýn og stefnu skólans sem er jafngömul skólanum. Við vinnuna eru allir aðilar skólasamfélagsins kallaðir að borðinu, nemendur, foreldrar, starfsfólk og samfélagið. Mikilvægt er að allir þessir hópar láti sig vinnuna varða. Sterkari stöndum við saman. Í kjölfarið verður skólanámskráin endurbætt með hliðsjón að Aðalnámskrá Grunnskóla með áherslu á menntun fyrir alla. Farið verður í endurskoðun á kennsluháttum með það fyrir augum að þeir verði fjölbreytilegri og nútíma verkfærum beitt.
Í skólastarfinu er mikil áhersla lögð á lestur og læsi. Í skólaslitsræðu sinni gerði skólastjóri að umtalsefni mikilvægi þess að lesa og láta aldrei deigan síga þegar kemur að lestri í hvaða mynd sem er. Lestur er ævilöng iðja sagði skólastjóri. Lesferill er mæling á læsi nemenda og hefur Menntamálastofnun hannað mat á læsi sem heitir Lesferill. Gefin hafa verið út stöðluð skimunar og stöðupróf sem lögð eru fyrir nemendur þrisvar á ári. Árangurinn er settur upp í feril og má þannig glöggt sjá hvar einstaka nemendur og hópar eru innan ákveðina viðmiða. Viðmiðin eru 3 samtals. Stefnt er að því að 90% nemenda nái viðmiði 1, 50% nemenda nái viðmiði 2 og að 25% nemenda nái viðmiði 3. Þannig setja viðmiðin læsisárangri ákveðið markmið.
Í Grunnskóla Fjallabyggðar hefur læsi nemenda aukist í vetur, sjá má greinilegan árangur allra árganga milli mælinga. Þegar skoðað er meðaltal lesinna orða og þau borin saman við áðurnefnd viðmið má sjá framfarir í öllum árgöngum. Í lok skólaárs hefur meðaltal lesinna orða náð viðmiði 1 í öllum árgöngum. Fimm árgangar af tíu eru rétt undir viðmiði 2. Árgangar eru ýmist undir eða yfir landsmeðaltali í jafnaldrahópum en þrír árgangar eru þó vel yfir landsmeðaltali.
Læsi og annar námsárangur helst mjög gjarnan í hendur. Óhætt er að segja að læsi sé undirstaða árangurs í öðrum námsgreinum. Niðurstöður samræmdra prófa 4., 7. og 9. bekkja eru annar mælikvarði og af allt öðrum toga. Niðurstöður prófa innan þessa árganga komu ágætlega út og er áhersla lögð á að bera nemendur saman við sjálfa sig og skoða framfarir yfir tímabil. Dæmi um það er gott að sjá framfarastuðul milli 4. og 7.bekkjar og 7. og 9. bekkjar. Ef skoðaðar eru niðurstöður samræmdra prófa í 7.bekk með þessum gleraugum má sjá að árgangurinn heldur vel í fyrri árangur árgangsins sem var vel yfir landsmeðaltali í báðum prófum. Námsmat í 9.bekkjar samræmduprófunum er birt í formi bókstafseinkunna og hægt er að bera dreifingu einkunna saman við dreifingu á landsvísu. Í ár náðu engir nemendur einkunninni A í íslensku og stærðfræði en fjöldi þeirra sem voru með B voru mun fleiri en á landsvísu. Í ensku er árangur hins vegar mun betri en á landsvísu þar sem 13,3% nemenda í Grunnskóla Fjallabyggðar náðu A en á landsvísu voru það 9,1%.
Óhætt er að segja að námsárangur í Grunnskóla Fjallabyggðar sé í sókn og með samstarfi um endurskoðun á stefnu skólans og kennsluháttum standa vonir og metnaður til að gera enn betur.
Foreldrar eru hvattir til að halda vel utan um nám barna sinna, sýna metnað og ábyrgð þeim til handa. Rannsóknir sýna að nemendum fer aftur í lestri í sumarfríinu, óháð aldri. Lestur, eins og önnur færni, er háð þjálfun. Ef einstaklingur les ekkert í nokkurn tíma dregur það úr frammistöðu. Þetta er vel þekkt bæði í listum og íþróttum. Nemendur geta misst leshraða niður um það sem samsvarar allt að ávinningi þriggja mánaða æfinga yfir sumartímann.
Tökum höndum saman við að byggja upp framúrskarandi skóla í Fjallabyggð, við höfum allt til að bera.
Höfundur: Ríkey Sigurbjörnsdóttir deildarstjóri fræðslu-, frístunda- og menningarmála.