Fyrir nokkrum árum birti undirritaður heilmikla samantekt um skíðastökk, með 35 skemmtilegum ljósmyndum sem sýndu okkur ýmislegt um hvar og hvernig þessi nú horfna vetraríþrótt var stunduð. Þar lýsti ég eftir myndum frá skíðastökks æfingasvæðinu, sem í daglegu tali var kallað “Gryfjan” heima á Sigló. Sjá meira hér:
Ekkert gekk að finna Gryfju myndir akkúrat þá, ég hafði samt óljósar minningar um að einhvers staðar á alnetinu stóra, hafði ég rekist á slíkar ljósmyndir, gat bara ómögulega munað hvar. Svo gerist þetta skrítna, fyrir nokkrum vikum, að góður frændi var á spjalli við mig á Messenger og spurði hann þá út í hvort ég hefði séð myndir af “Nönnu Franklín skíðahúfunum” vinsælu? Helst litmyndir… bætti hann við í lokin.
Skyndilega rann upp fyrir mér hvar þessar myndir var að finna, heilinn á mér tengdi þessar frábæru skíðastökks myndir sem birtast ykkur hér neðar, meira við þá staðreynd að á þessum svarthvítu myndum, sjáum við um 30 Sigló gutta á skíðastökks móti í einmitt Gryfjunni og allir eru með Nönnu Franklín húfur í ólíkum litum á hausnum. Undirritaður er einn af keppendum, líklega nýorðin tólf ára veturinn 1974. (Meira um elsku Nönnu Franklín og landsfrægu skíðahúfurnar hennar kemur í lok greinarinnar)
Flestar af þessum skemmtilegu og sögulegu skíðastökks myndum eru teknar af Oddur Guðmundur Jóhannsson, f. 15. desember 1954, d. 31. júlí 2022 ( oftast kallaður Guddi heima á Sigló)
Ef þið smellið á nafnið hans hér ofar, komið þið beint í heilmikið Siglfirskt ljósmyndasafn sem Guddi skilur eftir sig. Hann og Már Jóhannsson, bróðir Gudda, voru miklir áhugamanna ljósmyndarar og Már gaf mér góðfúslega leyfi að birta þessar Gryfjumyndir. Árið 2020 gáfu þeir bræður Ljósmyndasafni Siglufjarðar allt sitt filmusafn ( um 3000 myndir) Þær verða líklega gerðar okkur sýnilegar seinna.
Þessar myndir gefa okkur einnig ástæðu til að rifja upp ýmislegt sem tengist þessu svæði, eins og t.d. Ljósaskíðabrautinni svokölluðu, sem sést vel í bakgrunninum á myndunum, sumir segja að Ljósabrautin sé fyrsta upplýsta skíðasvæði Íslands., en það er kannski ekki alveg rétt reyndar. Segir Siglfirski Skíðakóngurinn Jonni Vilbergs.

Ljósmyndari: Oddur Guðmundur Jóhannsson.
Gryfjan
Þarna var líka Smurstöð með vinsælu bílaþvottaplani og dularfull kartöflugeymsla. Geymslan líktist mest grasi grónum aflöngum hól, eða gluggalausu Hobbitahúsi með vígalegri svart málaðri stálhurð í suðurendanum, það sést vel í þessa hurð á einni mynd hér neðar, en þá líkist kartöflugeymslan mest stóru snjóhúsi… með stálhurð.
Til gaman má geta að þarna voru ekki bara geymdar kartöflur, heldur einnig um tíma dínamít sprengiefni, líklega afgangar frá Strákagöngum sem opnuðu 1967. Nokkrir ónefndir barnæskuvinir mínir stálu slatta af þessu dínamíti og þar á eftir gerðu þeir stórhættulegar tilraunir úti á öskuhaugunum í Selgilinu . Atburðirnir í Selgilinu heyrðust líklega alla leið út í Grímsey, en þessi saga verður ekki sögð hér og nú. Þessir glæpamenn voru á sínum tíma ágætis skíðastökkvarar, en eru í dag, allir vel menntaðir hálfvitar, í góðum ábyrgðarstöðum.
Það er líklega best að við byrjum á því að kíkja á myndir sem sýna okkur Gryfju umhverfið á milli Brekkugötu og Hólavegs.
ATH. Smelltu á mynd og hún birtist þér stærri.


Ljósmyndari Jón Ólafur Björgvinsson.

Stökkpallurinn í Gryfjunni
Margir strákar sem og nokkrar stelpur eiga sér örugglega bæði góðar og slæmar minningar frá æfingum og keppnum í Gryfjunni. Pistlahöfundur minnist þess að maður varð að passa sig eftir lendingu að fara ekki of langt yfir Hólaveginn, því þá gat maður lent í árekstri við þakið á gömlu Smurstöðinni eða rekist á ýmis stór farartæki sem stóðu kringum Smurstöðina.
Góð alvöru stökkskíði fyrir börn og unglinga voru vandfundin líka og oftast fékk maður að erfa alvöru stökkskíði við 14-15 ára aldurinn og skó frá sér eldri frændsystkinum og ekki má geyma þeirri staðreynd að stökkskíði eru breið, löng og þung.
Ég man t.d. eftir einum félaga í Gryfjunni, sem hreinlega stökk upp úr of stórum skónum og skyldi eftir bæði skíði og skó á sjálfum stökkpallinum.


Fyrstu tvær Gryfju myndirnar hér neðar eru stækkaðir hlutar úr öðrum myndum og sýna okkur aðrennslis turninn og sjálfan stökkpallinn sem var steinsteyptur, minnir mig. Aðrennslis turninn er til þess að skapa betri fallhæð og er einföld trégrind og ofan á honum voru bárujárnsplötur. Mér er minnisstætt að ef snjórinn í pallbrekkunni blotnaði of mikið, þá rann hann bara af, bárujárnsplöturnar voru svo sleipar.
Á þriðju myndinni sjáum við nærmynd af nokkrum keppendum, (með Nönnu Franklín húfur) en þar sést líka að við guttarnir erum flest allir á venjulegum svigskíðum með nýmóðins smellu hæl og tá bindingum. ATH. Þetta er alls ekki góður lendingar búnaður í skíðastökki. Hættan er að við harkalega lendingu að maður skjótist úr skíða bindingunum. Man að fyrir keppni, vorum við mikið að hjálpa hvor öðrum að herða allt í botn, en það bíður samtímis fótbrota hættunni heim.
Nokkrir eru eflaust á gömlum skíðum með áskrúfuðum stálköntum og gamaldags gormabindingum, þessi skíði voru oftast aðeins breiðari en venjuleg svigskíði og þar af ágætis æfinga stökkskíði fyrir börn. ( Þetta með áskrúfaða stálkanta, var lengi vel leiðigjarnt vandamál. Meira um þetta atriði kemur seinna)
ATH. Smelltu á mynd og hún birtist þér stærri.








Ljósmyndari: Oddur Guðmundur Jóhannsson.
Mynd 4, 5 og 6 sýna okkur nokkur keppnisstökk, en á þeim tveim síðustu erum við guttarnir allir í undirbúnings vinnu við að troða lendingar brautina vel og vandlega. Eins og sjá má á myndunum, þá hefur snjóað mikið dagana fyrir mót og þar af voru allir hvattir til að mæta strax þegar birti af degi, til að moka, troða og skapa réttan halla á brekkuna, undir góðri handleiðslu frá reyndum skíðastökks köppum.
Gryfjusvæðið var ekki upplýst eins og Ljósabrautin, en við fengum smá birtu frá ljósastaurum við Brekkugötu og Hólaveg.
Viðbótar upplýsingar sem bárust eftir birtingu frá Valmundi Valmundssyni:
“Seinna kom svo á sama Gryfju svæði, pallur og turn úr járni á túnið hjá Jóni Gísla. Þá enduðum við ferðina oft uppi á þaki Smurstöðvarinnar, ef nægur snjór var. Annars varð maður að vera snöggur að stoppa eftir lendingu.”
Ljósabrautin

Við látum sjálfan Skíðakónginn Jóhann Vilbergsson, segja okkur frá þessu upplýsta skíðasvæði:
“Ég held að á svæðinu í hlíðinni neðan við Gimbraklettana og fyrir ofan Gryfjurnar og Seljaland, hafi verið sett upp fyrsta eiginlega skíðalyftan á Siglufirði sem gat almennilega staðið undir því nafni. Svæðið var líka upplýst og oftast kallað Ljósabrautin, en lýsingin var reyndar komin á undan lyftunni svo undarlegt sem það kann að virðast. Margir vilja meina að þetta sé fyrsta upplýsta skíðasvæðið á Siglufirði eða jafnvel á landinu, en líklega er það ekki svo. Tæplega tveimur áratugum áður munu vaskir Skíðaborgarmenn hafa lagt rafmagn frá Hlíðarhúsum og suður að skálanum sem stóð fyrir ofan Steinaflatir. Þar hefur líklega fyrsta upplýsta skíðasvæði landsins verið. En brautin fyrir ofan bæinn var gríðarlega vinsæl og fjallshlíðin var oft alveg full af fólki eftir að skyggja tók...”


“…Ég og nokkrir fleiri vildum upphaflega fá að koma fyrir lyftu þarna og það gekk eftir. Eldjárn Magnússon sem þá var formaður skíðafélagsins sagði okkur að við fengjum fjárveitingu upp á tíuþúsundkall, en allt umfram það yrðum við að borga sjálfir. Það voru auðvitað öll ráð notuð við að halda kostnaðinum niðri, allt var unnið í sjálfboðavinnu og við fórum betlandi um bæinn. Það var steyptur þarna grunnur undir lítinn skúr sem var aðallega hugsaður utan um mótorinn, Kiddjón útvegaði rafmagnsmótor úr ríkinu og Sigurður Jónsson lét okkur hafa vír. Við steyptum niður festingar undir vírahjólin uppi undir Gimbraklettunum, en þar var endastöðin. Allt gekk upp samkvæmt fjárhagsáætluninni, lyftan kostaði innan við tíuþúsunkall í útlögðu fé og margir áttu eftir að eiga þarna frábærar stundir á skíðum eftir að skyggja tók, vel upplýstir og flottir. Þarna var fín svigbraut og þetta var frábær aðstaða ef það var snjór, en stóð því miður allt of stutt. ”
Sjá meira hér í grein frá 2011 á sigló.is og mikið af skemmtilegum skíðamyndum:
Spjallað við burtfluttan Siglfirðing – Jóhann Vilbergsson
Það er einnig athyglisvert hvað Siglfirðingar eru uppfinninga ríkir og viljugir að hafa mikið fyrir því að fara á skíði, en hér segir Jonni Vilbergs frá traktorskíðalyftu og skíðaferðum upp í Hvanneyrarskál.
Smelltu á mynd og hún birtist þér stærri.



Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
“… Það var mest stokkið á Litla-bola og Stóra-bola meðan snjór hélst í byggð, en það gekk svo auðvitað ekki þegar fór að vora og svo komu líka nokkrir snjóleysisvetur upp úr 1960. Þá var eitt sinn brugðið á það ráð að fara með traktor upp í Hvanneyrarskál, þar alveg inn í botn og sett upp kaðallyfta. Ég held að ég fari rétt með að það hafi verið veturinn 1963-64. Ég man vel eftir þessu því ég keyrði traktorinn upp eftir, svo innpakkaður í allan kaðalinn að ég sá varla veginn. Þá var ekkert til sem hét öryggisbúnaður af neinu tagi og einu sinni festi Björn Olsen peysuna í tóginu og var næstum því kominn inn í blökkina þegar einhverjir nærstaddir náðu að stoppa þessa frumstæðu lyftu. Við Pétur Guðmundsson vorum aðal splæsararnir því kaðallinn var alltaf að slitna...”
“…Þarna var æft svig öðrum megin við lyftuna, en stórsvig hinum megin. Svo var líka stökkbakki á þessu sama svæði sem var á sínum tíma sá stærsti á Siglufirði og þar stökk Jónas Ásgeirs einu sinni heila 58 metra sem hefur þá líklega verið lengsta stökk á Siglufirði. Það þótti mörgum of langt að fara alla leið þarna upp eftir og mér fannst áhuginn fyrir skíðaíþróttinni fara minnkandi. Það gæti verið vegna aðstöðuleysis svona yfirleitt, snjóleysis í nokkur ár og svo því kröfurnar fóru vaxandi á þessum árum. ” (Viðtal við Jonna Vilbegs, eftir Leó Ólason, siglo.is 2011)
Glæfrastökk á Jónstúninu og stálkanta skrúfuvandamál
Margir nú fullorðnir krakkar, muna örugglega vel eftir skíða og snjóþotu leikjum á Jónstúninu og á myndinni hér neðar sjáum við málað með bláum strikum að sumir fóru langt upp í fjall og stukku síðan fram af kletti og yfir veginn og flugu síðan langt niður á Jónstúnið.
Hvorki ég eða Jonni Vilbergs Þurftum í barnæsku að fara langt, hann átti heima í húsinu sem er merkt “Amma Rósa” og ég sjálfur bjó í kjallaranum við Hverfisgötu 27 í húsi merkt “Amma Nunna.” Já ég átti indæla og skíðadellu skilningsríka ömmu, og margar auka ömmur í nágrenninu.
Amma Nunna var í sinni barnæsku skíðastökkvari eins og ég og hún vann keppi í “Loftstökki” veturinn 1931.

Í áðurnefndu viðtali á sigló.is 2011, segir Jonni frá ævintýrum á þessu svæði:
“…Grímur í Leyningi hvatti mig mikið til þess að koma og æfa með þeim strákunum á Jónstúninu, sem var sunnan við húsvegginn þar sem ég átti heima. Jónstúnið var mjög bratt ofan til, en mun sléttara þegar neðar dró og þess vegna kjörlendi fyrir stráka eins og okkur og þá sérstaklega til að æfa þarna stökk. Það má segja að það hafi verið í laginu eins og stökkbraut, nema það vantaði auðvitað stökkpallinn. Það var hins vegar lítið vandamál því við hlóðum hann úr snjó, en af því byggingarefni var alla jafna meira en nóg til af...”
“… Einu sinni sem oftar voru þeir Halli Páls, Grímur í Leyningi og fleiri karlar að æfa á túninu og ég og einhver sem var með mér þarna vildum sýna hvað við gætum. Við röltum upp brekkuna og renndum okkur niður, en þá kom berlega í ljós hvað okkur skorti upp á búnaðinn. Við vorum á stálkantalausum skíðum og sópuðum burtu hálfri brautinni, en strákarnir sem voru þarna fyrir urðu auðvitað alveg bandbrjálaðir og ráku okkur heim. Ég sá að það var lítil framtíð í þessu svo ég fór til pabba og bað hann um skíði með stálköntum. Þá átti Viddi Magg Splitken skíði sem hann notaði aldrei, hann var alveg til í að selja þau og það má alveg segja að með þeim hafi ballið byrjað fyrir alvöru...”

“… Stálkantarnir gátu líka á sinn hátt verið visst vandamál, en þeir voru skrúfaðir á með litlum undirsinkuðum skrúfum. Það var með þetta eins og fleira hér áður fyrr, það var alveg ómögulegt að fá þessa hluti ef einhver áföll urðu og litlu skrúfurnar voru því sem næst þyngdar sinnar virði í gulli…“
“… Jóhann Ólafsson átti heima í Bjarnaskúrnum, en hann var mjög góður stökkvari og sótti mikið í Jónstúnið. Hann átti Splitkein skíði eins og ég og er einu sinni sem oftar á ferðinni þarna á Jónstúninu. Líklega hefur færðin verið eitthvað í slakari kantinum þennan daginn og honum fundist afrek okkar ekki vera upp á marga fiska. Hann spyr í hálfkæringi hvers vegna við stökkvum ekki almennilega niður á bunguna, en við svörum því til að hann skuli bara reyna að gera betur sjálfur. Hann fer þá langt upp fyrir túnið, eiginlega upp í fjallsræturnar og rennir sér af stað niður af miklum krafti. Það skipti engum togum að hann stekkur yfir bunguna og lendir ekki fyrr en á sléttunni fyrir neðan. Hann neglist þar niður og fer einhverja hringi í loftinu, en verður til allrar hamingju ekkert meint af því...”
“…Hann stendur upp og ætlar þá að halda áfram, en þá renna skíðin ekki neitt því að stálkantarnir eru horfnir og auðvitað allar skrúfurnar líka. Við nánari athugun kom í ljós að þeir höfðu sprottið frá skíðunum við þessa hörðu lendingu og lágu eftir eins og silfurlitaðar rákir í snjónum. Þetta þýddi auðvitað að við eyddum allir sem þarna vorum, hálfum deginum í leit og björgunaraðgerðir því ekki mátti týna einni einustu skrúfu…”
Sjá meira hér: (Viðtal við Jonna Vilbegs, eftir Leó Ólason, siglo.is 2011)
Nönnu Franklínshúfurnar!
Þessar landsfrægu og vinsælu Nönnu Franklín skíðahúfur voru í tísku í hátt í tvo áratugi. (frá um 1970-90)
Það er óþarfi að kynna þessa indælu konu. “Hallfríður Nanna Franklínsdóttir” eins og hún hét fullu nafni , var um tíma elst allra Íslendinga. Hún fæddist 12. maí 1916 að Litla-Fjarðarhorni í Kollafirði í Strandasýslu og var á 106. aldursári, þegar hún lést 2022.
Nanna var alltaf með húmorinn á réttum stað og með eindæmum barngóð manneskja.

Það er best að Nanna sjálf, segi frá sjálfri sér og þessum húfum og styðst ég hér við texta frá Sigurði Ægissyni og hans nú horfnu heimasíðu, Siglifirðingur.is. Textinn birtist í tilefni af 100 ára afmælis Nönnu.
„… Ég vann mest í síld og fiski, eftir að ég kom hingað,“ segir Nanna. „En í lok sjöunda áratugarins opnum við svo litla verslun og erum með hana í um 14 ár. Hún hét fyrst ekki neitt, en svo var alltaf verið að spyrja mig af hverju verslunin héti ekki neitt. Ég svaraði því til að við værum svo fátæk í anda hér fyrir norðan. En að endingu fékk hún svo nafnið Búrið…“
“… Nanna hafði eignast prjónavél, þegar hún bjó í foreldrahúsum og seldi varning þar í kring, aðallega peysur og nærföt, en fljótlega eftir að þau hjón opna verslunina á Siglufirði kemur ungur drengur til hennar og biður hana um að gera fyrir sig húfu eftir kúnstarinnar reglum. Sem hún og gerir, eftir nokkra umhugsun. Það var upphafið að Franklínshúfunum svokölluðu, sem áttu eftir að fara um land allt og víða um heim á næstu árum. „Já, ég seldi mikið,“ segir Nanna, þegar hún er spurð út í málið.“
„Ég man að ég sendi einu sinni 45 í einu til Ísafjarðar.“
Ég minnist þess vel að hafa átt margar svona skíðahúfur og einnig að ég var tíður spjall gestur í Búrasjoppunni hennar Nönnu við Túngötuna, á tíðum ferðum mínum til og frá á leið minni á sundæfingar í Sundhöll Siglufjarðar.
Að lokum:
Mínar eigin skíðaferðir byrjuðu snemma og enduðu oft illa…

Minn eigin skíðastökks ferill byrjaði ekki beinlínis vel.
Ég hafði, þá 9 ára gamall, búið mér til ágætis stökkpall á túninu fyrir sunnan Hafnartún 6 og náði sæmilegri fallhæð frá bílastæði á Laugarveginum þar fyrir ofan. Var bara á venjulegum svigskíðum með gormabindinga og í einu stökkinu féll ég fram fyrir mig og lenti hálf illa. Meiddi mig ekkert að ráði fannst mér, en þegar ég stóð upp og byrjaði að hrista af mér snjóinn, þá fannst mér skrítið hvað mér hitnaði skyndilega mikið á hendinni í vinstri ullarvettlingnum. Dró af mér þumal vettlinginn og þá fæ ég bara væna blóðgusu í andlitið.
Einhvern veginn tókst mér að skera á púlsæðina með skíðunum, sem betur fer voru ekki nema tæplega 150 metrar heim í hús og hljóp ég eins hratt og ég gat og blóðið spýttist jafn hratt úr hendinni á mér. Guði sé lof þá var þetta á sunnudagsmorgni og pabbi var heima og hann henti mér inn í aftursætið á nýja bílnum sínum og skipaði mér að halda hendinni hátt upp í loft. Hann keyrði svo í loftköstum upp á Suðurgötu til Sigurðar læknis sem var alltaf á bakvakt og hann saumaði mig saman á núll einni. Það steinleið yfir mig á leiðinni heim og pabbi var í tvo daga að þrífa blóðið úr nýja bílnum.
Það var dásamlegt að alast upp í snjónum og frjálsræðinu heima á Sigló og líklega eiga margir sér svipaðar skíða minningar eins og ég. Mér fannst skemmtilegast að vera mest í skíðastökkinu, en einnig að fara í langa göngutúra upp í fjöll og gil og stökkva fram af hengjum í t.d. Löngulaut, því það var svo sannarlega aldrei skortur á snjó heima á Sigló, eins og sjá má á ljósmyndunum í þessari grein:
Snjóþungi – snjóflóð – hafís o.fl. 50 myndir
Verð einnig að viðurkenna að ég var algjör skíðaníðingur og ég braut t.d. góð notuð Rossignol skíði sem pabbi keypti handa mér af góðum Laugarvegsvini… eftir bara 5 daga. Hann tók ekki í mál að kaupa ný skíði og gerði við þau með lítilli álplötu og góðum slatta af Jötungripi.
Ég eignaðist svo loksins ágætis stökkskíði þegar ég var um 13-14 ára gamall. Þetta voru forláta norsk “Hickory” stökkskíði frá 1956 og þau voru níðþung og 2.30 m á lengd. Á þessum tíma æfðum við mest í Gryfjunni og einnig stukkum við fram af hól norðan við Steinaflatir suður á firði, þegar nægur snjór var á því svæði. Það leiðinlega við þennan stað var að við þurftum að bera skíðin langt upp í fjall til að fá nægilega ferð í stökkið. Pistlahöfundur minnist þess að um miðjan maí í grjóthörðu vorhjarni verið við æfingu á Steinarflötum, ásamt Valmundi Valmundssyni og Ingvari Hreinssyni. Það er Sigló vorlogn og sólarblíða og ákváðum við skíðastökks töffararnir að stökkva eina bunu berir að ofan.
Að sjálfsögðu var það bara ég, sem datt eftir um 25 m stökk og lenti ég á vinstri hliðinni og rann lengi á hjarninu áður en ég stöðvaðist allur sundur skrapaður vinstra megin. Það var eins og ég hefði verið dregin á eftir bíl á malbiki, gat varla sofið fyrir sviða og verkjum í tvær vikur.
Þrátt fyrir að vera mikill skíða hrakfallabálkur og allskyns slys, þá var þetta aðallega mjög svo skemmtilegt og ég minnist þess einnig að margar stelpur voru alveg jafn kaldar og við strákarnir og við Siglfirðingar áttum í áratugi margar flottar Skíðadrottningar.

Ég mæli eindregið með því að ef ykkur þyrstir í meira skemmtilegt skíðasöguefni, að þið lesið og skoðið myndirnar í þessu gamla viðtali frá 2010, við Dísu Þórðar. Hún Árdís Þórðar á Nesi/Í Hrímni, frænka mín, er Hrímnis-barn eins og ég og eflaust munu margir þekkja síg í hennar OFVIRKU barnæskulýsingum, rétt eins og ég geri.
Sjá meira hér:
Spjallað við burtfluttan Siglfirðing – Árdísi Þórðardóttur.
Og meira hér um Hrímnir H/F:
Höfundur samantektar:
Jón Ólafur Björgvinsson .
Sjá meira söguefni eftir sama höfund hér:
https://trolli.is/author/nonni/
Forsíðu ljósmynd:
Ljósmyndari:Oddur Guðmundur Jóhannsson
Aðrar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá: Már Jóhannsson og Ljósmyndasafni Siglufjarðar.
Heimildir:
Vísað er í ýmsar heimildir gegnum vefslóðir í greininni.