Lagt fram erindi H- listans á 689. fundi bæjarráðs Fjallabyggðar þar sem óskað er eftir því að bæjarstjóra verði falið að senda formlegt erindi til Landhelgisgæslunnar, dómsmálaráðherra, menntamálaráðherra og forsætisráðherra þar sem þeirri hugmynd verði komið á framfæri að varðskipið Týr fái framtíðarhöfn í Ólafsfirði þar sem það yrði gert að safni. Einnig yrði hægt að vera með leiðsögn um skipið. Forsenda þess að farið yrði í að skoða málið er að fjármunir frá hinu opinbera fylgdu verkefninu. Þá er talið að sveitarfélagið eigi að hafa forgöngu um að kanna málið formlega, enda reiknað með að Fjallabyggð bjóði frítt legupláss fyrir skipið.
Meirihluti bæjarráðs leggur til að bæjarráð hafni þeirri málaleitan H-lista að bæjarstjóra verði falið að hafa, f.h. sveitarfélagsins, formlegt frumkvæði að því að leita annars vegar eftir því að varðskipinu Tý verði fundinn framtíðar legustaður í Ólafsfjarðarhöfn og skipið gert að safni og hins vegar að sækjast eftir fjárhagslegum stuðningi ríkissjóðs til undirbúnings og framtíðarrekstrar umrædds safns og skips. Einnig samþykkir meirihluti bæjarráðs að beina því til hafnarstjórnar að ef, á einhverjum tímapunkti, fram kemur útfærð og fjármögnuð hugmynd um varðveislu skipsins og uppsetningu safns í Ólafsfjarðarhöfn að þá verði horft til þess að styrkja verkefnið með fjárhæð sem nemur viðlegugjöldum.
Framlögð tillaga samþykkt með tveimur atkvæðum gegn einu atkvæði Jóns Valgeirs Baldurssonar H-listans.
Bókun meirihluta vegna málsins: Um leið og hugmynd H-listans er góðra gjalda verð þá eru á málinu þessháttar meinbugir að ekki er nokkur leið fyrir meirihluta bæjarráðs að samþykkja erindið. Meirihlutanum er t.d. algjörlega hulið hvernig H-listinn hefur hugsað sér framhaldið ef svo vill til að skip og nægjanlegt fjármagn fengist frá ríkisvaldinu. Hvergi í erindi H-listans er þess getið hver hugsanlega muni hafa forgöngu um verkefnið né er í erindinu leitast við að varpa ljósi á það hvort mögulega einhver, félagasamtök eða einkaaðilar, sjái sér hag í rekstri skips og safns. Því er erfitt að ráða annað af erindinu en H-listinn horfi til þess að sveitarfélagið muni með beinum hætti koma að aðstöðusköpun og framtíðarrekstri skipsins sem og safnsins sem H-listinn sér fyrir sér að í skipinu verði.
Þessháttar opnar ávísanir getur meirihluti bæjarráðs ekki tekið þátt í að samþykkja.