Ríkislögreglustjóri í samráði við Lögreglustjórann á Norðurlandi eystra hefur ákveðið að lýsa yfir hættustigi vegna vatnavaxta í ám og vötnum á svæðinu. Þessar miklu leysingar eru til komnar vegna mikils lofthita. Gríðarlegir vatnavextir eru þessa dagana í landshlutanum sem getur og hefur valdið því að bæði vegir og brýr rofna.
Íbúar og vegfarendur eru beðnir um að vera ekki nálægt ám og vötnum sem eru í miklum vexti. Þá er fólk á Akureyri sérstaklega beðið um að vera ekki á ferðinni í kringum Glerá. Vegurinn við Þverá í Eyjafirði rofnaði í gærkvöldi og unnið er að lagfæringu hans. Vegurinn innan við Illugastaði hefur rofnað og er lokaður. Einnig eru skemmdir við brúnna yfir Fnjóska á móts við Illugastaði og hún lokuð vegna þessa. Mestu vatnavextir eru í Eyjafjarðará og Fnjóská og er fólk beðið um að fara varlega við árnar.
Eins og fram kemur á heimasíðu Veðurstofu Íslands þá er áfram spáð miklum leysingum í hlýindum víða um land. Má því búast við áframhaldandi hárri vatnsstöðu og miklu rennsli í ám og lækjum, sér í lagi þar sem hlýtt er í veðri og snjór enn til fjalla. Ferðafólk er hvatt til að sýna aðgát við óbrúaðar ár á hálendinu.
Mynd/ Lögreglan á Norðurlandi eystra