Starfsgreinasamband Íslands og Samtök atvinnulífsins hafa átt í viðræðum um nýjan kjarasamning frá því í október 2018. Á þeim tíma hafa aðilar átt tæplega 80 fundi um sértæk mál, sem og hátt í 30 fundi viðræðunefnda SGS og SA, um forsendur og innihald nýs kjarasamnings.
Ýmislegt hefur þokast áfram á undangegnum vikum í einstökum málum og umræðugrundvöllur til staðar á öðrum sviðum. Þrátt fyrir það er það mat viðræðunefndar Starfsgreinasambandsins að nú verði ekki komist lengra nema með aðkomu ríkissáttasemjara að deilunni, sem er eðlilegt skref í áframhaldandi vinnu.
Í samræmi við umboð frá samninganefnd Starfsgreinasambandsins frá 14. febrúar síðastliðnum, samþykkir viðræðunefnd SGS að vísa kjaradeilu Starfsgreinasambandsins við Samtök atvinnulífsins til ríkissáttasemjara.
Starfsgreinasambandið fer með umboð fyrir eftirtalin 16 aðildarfélög;
AFL Starfsgreinafélag, Aldan stéttarfélag, Báran stéttarfélag, Drífandi stéttarfélag, Eining-Iðja, Framsýn stéttarfélag, Stéttarfélag Vesturlands, Stéttarfélagið Samstaða, Verkalýðsfélag Snæfellinga, Verkalýðsfélag Suðurlands, Verkalýðsfélag Vestfirðinga, Verkalýðsfélag Þórshafnar, Verkalýðsfélagið Hlíf, Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis og Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis.
Forsíðumynd: pixabay